Grindavík vann Stjörnuna, 105:91, í þriðja leik liðanna í undanúrslitaviðureign þeirra í Íslandsmóti karla í körfubolta í Garðabænum í gærkvöldi. Var þetta fyrsti sigur Grindavíkur á Stjörnunni á útivelli síðan í febrúar árið 2018.
Ólafur Ólafsson fyrirliði Grindavíkur var að vonum ánægður með sigurinn og þá staðreynd að von Grindvíkinga um að komast í úrslitaviðureign lifir enn en þrjá sigra þarf til að komast þangað. Spurður út í muninn á leik liðsins í kvöld í samanburði við fyrstu tvo leikina sagði Ólafur þetta:
„Í raun enginn munur þannig séð. Við áttum, fannst okkur að vinna leik númer tvö. En við sofnuðum á verðinum þá. Ef maður gerir það á móti jafn sterku liði og Stjörnunni þá refsa þeir manni.
Við náðum að standa af okkur storminn í fjórða leikhluta. Við vorum 16 stigum yfir þegar hann byrjar og þeir minnkuðu þann mun niður í átta stig en við náðum að standa höggið miklu meira af okkur en í fyrri leikjum. Mér fannst við aldrei vera að missa þetta neitt niður og að þetta væri í okkar höndum sem er mjög þægileg tilfinning.“
Staðan er þá 2:1 í einvíginu og Grindavík enn þá með bakið upp við vegginn fræga. Hvernig mun Grindavík fylgja þessum leik eftir?
„Bara það sama. Halda áfram að vera betri í því sem við erum búnir að gera vel í fyrstu þremur leikjunum. Halda bara áfram að byggja ofan á þetta. Við megum ekki slaka á því ef það gerist þá getum við alveg tapað með 30 stigum á móti þeim.“
Stjörnumenn voru ansi pirraðir í fjórða leikhluta, bæði inni á vellinum og í stúkunni. Mikill hiti, slagsmál í stúkunni og á mörkum þess að fara í átök inni á vellinum. Eru Grindvíkingar búnir að finna leiðina að helstu leyndarmálum Stjörnunnar með þessum sigri?
„Við erum bara keppnismenn. Okkur langar rosalega mikið að vinna. Þetta fylgir því bara að vera keppnismaður. Þetta eru bara fullvaxin karldýr að keppa og það er yfirleitt hiti í því. Ef það væri ekki hiti í þessu þá væri þetta hundleiðinlegt.“
„Við verðum að byggja ofan á það sem við gerðum vel í dag og í leik númer tvö. Halda áfram að spila sem lið og halda leikplani,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is.