Krista Gló Magnúsdóttir leikmaður Njarðvíkur setti risastóran þrist þegar 22 sekúndur voru eftir af leik Hauka og Njarðvíkur í kvöld. Með körfunni breytti hún stöðunni úr 93:92 fyrir Hauka í 95:93 fyrir Njarðvík sem voru lokatölur leiksins.
Njarðvíkingar knúðu því fram fjórða leikinn í Icemarhöllinni næsta laugardag. Spurð út í leikinn sagði Krista Gló þetta:
„Þetta var erfiður leikur. Þetta var upp og niður hjá okkur en við sýndum að við vildum ná þessum sigri því við ætluðum ekki að fara út úr þessu einvígi með 3:0 tap.“
Þá spyr ég kannski asnalegrar spurningar. Er þá 3:1 tap ásættanlegri niðurstaða?
„Nei við ætlum að koma þessu í oddaleik, ekki spurning.“
Ef við förum yfir leikinn þá nær Njarðvík mest 20 stiga forskoti en síðan ná Haukar frábærum köflum sem á endanum koma þeim yfir í leiknum og útlitið er farið að dökkna fyrir Njarðvík. Hvað þarf til þess að standast svona áhlaup eins og kemur alltaf frá Haukum?
„Liðsheild og vilji. Við erum í þessu saman og við sýndum það inni á vellinum í kvöld.“
Þið knýið fram fjórða leikinn í Icemarhöllinni á laugardag. Hvað þarf til að fylgja þessum sigri eftir með öðrum sigri gegn deildarmeisturunum?
„Sýna meiri baráttu, spila vörn og spila okkar sóknarleik myndi ég segja.“
Haukar missa Diamond Battles út úr húsi þegar mikið er eftir af leiknum. Hefði þessi leikur endað með sigri Njarðvíkur ef hún hefði náð að spila allan leikinn fyrir Hauka?
„Já, ég vil trúa því.“
Hvað hefðir þú viljað sjá fara betur í kvöld?
„Ég hefði viljað sjá okkur stoppa þeirra áhlaup fyrr. Þær koma alltaf til baka. Við náum forskoti og við þurfum að reyna að halda því út leikinn,“ sagði Krista Gló í samtali við mbl.is.