Einar Árni Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í körfubolta, var stoltur af sínu liði sem knúði í kvöld fram oddaleik gegn Haukum um Íslandsmeistaratitilinn.
Njarðvíkingar unnu fjórða leikinn, 94:78, og liðin mætast í fimmta sinn á þriðjudagskvöld í Hafnarfirði. Spurður út í leikinn í kvöld sagði Einar Árni:
„Við erum að byggja ofan á síðasta leik og fækka mistökum. Við töluðum um það í hálfleik að hálfleiksstaðan gæfi kannski ekki rétta mynd af frammistöðunni. Við vorum með óþarfa tapaða bolta, óþarflega mörg sóknarfráköst sem Haukar náðu sem gerði það að verkum að þær voru að halda þessu óþarflega jöfnu.
Hrós á Hauka. Þær eru erfiðar og þær eru agressívar. Við brugðumst vel við. Frammistaðan okkar í þriðja leikhluta, sem hefur oft verið okkur erfiður, var frábær. En þetta er sambland. Við vorum áræðnar á boltann, náðum frábærum momentum varnarlega. Síðan vorum við skynsamar sóknarlega. Við leituðum í góð skot og treystum hver annarri. Klassískur Njarðvíkursigur þar sem við fáum svo mikið framlag frá svo mörgum.
Þessar íslensku stelpur okkar eru algjörir töffarar. Sýna það enn og aftur. Eins og einhver sagði við mig áðan þá er þetta ekkert alltaf úr sömu átt. Það er það fallega við Njarðvík. Við erum lið.“
Staðan í einvíginu er 2:2 sem þýðir hreinn úrslitaleikur á þriðjudaginn. Hvað þarf til að ná fram sigri þá?
„Við þurfum frammistöðu á sömu nótum og í síðustu tveimur leikjum. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir að það getur komið eitthvað nýtt frá Haukum í þeim leik. Það er bara eins og gengur og gerist.
En það er trúin. Hún er gríðarlega sterk. Trúin og traustið sem við berum til hvers annars. VIð þurfum að ríghalda í það. Ég hef haft trú á liðinu mínu allan tímann og þær hafa haft trú á sér og sínu allan tímann.
Við erum sannfærð um okkar styrkleika sóknarlega. Við vitum að það er verið að leggja mikla áherslu á Brittany og Paulinu. En þetta er skynsemin og yfirvegunin í sóknarleiknum og massífur varnarleikur sem við þurfum að taka með okkur.
Síðan er það stuðningurinn. Ég er hrikalega ánægður með okkar fólk á Ásvöllum í síðasta leik og svo aftur hér í kvöld. En við treystum á fullt hús af Njarðvíkingum í Hafnarfirði á þriðjudaginn og standandi partý,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is.