Danski körfuboltamaðurinn Adama Darboe fór fyrir Ármenningum þegar liðið tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í 45 ár með sigri gegn Hamri í oddaleik liðanna í umspili 1. deildarinnar í Laugardalshöllinni á mánudaginn.
Darboe, sem er 39 ára gamall leikstjórnandi og fyrrverandi landsliðsfyrirliði Danmerkur, gekk til liðs við Ármann síðasta sumar en hann hefur einnig leikið með KR og Stjörnunni hér á landi.
Danski leikstjórnandinn skoraði 16 stig í oddaleiknum gegn Hamri, ásamt því að taka sjö fráköst og gefa átta stoðsendingar en hann er útnefndur maður leiksins í leikslok.
„Maður hefur upplifað marga stóra sigra á ferlinum og þessi var á meðal þeirra sætustu,“ sagði Darboe í samtali við Morgunblaðið en hann lék bæði í heimalandi sínu Danmörku og í Svíþjóð áður en hann kom til Íslands árið 2021 þar sem hann hefur leikið síðan.
„Þetta var langt tímabil og gengið hefur verið upp og ofan. Við vorum hóflega bjartsýnir fyrir leikinn en að spila þennan leik á heimavelli hjálpaði okkur mikið. Við unnum fyrir heimavallarréttinum í einvíginu og það sýndi sig á endanum hversu miklu máli hann getur skipt í svona einvígi.
Þetta var týpískur oddaleikur fannst mér, þar sem allt var undir. Hjartað ætlaði út úr búningnum á tímabili, hjá okkur öllum. Ég hef verið atvinnumaður í íþróttinni í mörg ár og það eru þessir leikir sem maður lifir fyrir. Að vinna þessa stærstu leiki gefur manni eitthvað sem þú færð hvergi annars staðar og tilfinningin í leikslok var ofboðslega góð. Ég er virkilega stoltur af bæði liðinu og félaginu í heild sinni,“ sagði Darbo.
Alls mættu 1.337 áhrofendur í Laugardalshöllina á mánudaginn og fundu leikmenn beggja liða vel fyrir stuðningnum.
„Ég vil nota tækifærið og hrósa stuðningsmönnum Hamars sem fjölmenntu á alla leiki einvígisins. Þessi stuðningur sem við fengum skipti okkur einfaldlega öllu máli. Það var næstum því fullt, í stærsta íþróttahúsi landsins, sem segir manni ýmislegt. Þetta sýnir líka hversu miklu máli þetta skiptir fyrir félagið í heild sinni.
Það er fólk sem starfar í kringum Ármann sem eyðir líklegast meiri tíma en við inni í íþróttahúsinu. Það er endalaust af sjálfboðaliðum líka sem vinna mjög óeigingjarnt starf. Allt þetta fólk, stjórnarmeðlimir og þeir sem starfa á bak við tjöldin, eiga jafn mikið í þessum árangri og við. Það fór mikil orka hjá öllum í þetta tímabil og ég hefði ekki getað hugsað mér betri endi.“
Viðtalið við Darboe má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.