„Tilfinningin er mjög góð. Þetta er náttúrlega tækifæri til þess að byggja á því sem við erum nú þegar búnir að búa til,“ sagði Hilmar Smári Henningsson, lykilmaður Íslandsmeistara Stjörnunnar í körfuknattleik, eftir að hann skrifaði undir nýjan eins árs samning við félagið.
„Eins og ég hef nefnt áður líður mér ótrúlega vel hérna í Garðabænum í þessum kúltúr sem við erum búnir að mynda. Það er bara gleði og spenna,“ sagði Hilmar Smári í samtali við mbl.is.
Hann var afar eftirsóttur í sumar og viðurkenndi að hafa rætt við önnur félög, þó vilji Hilmars Smára hafi verið ljós.
„Já, já það var fullt af viðræðum. Ég held að það fylgi því bara að vera íslenskur leikmaður hérna á Íslandi. Það voru einhverjar viðræður og ég tók einhver símtöl.
Á endanum gerði ég öllum þeim sem höfðu samband það ljóst að það færi ekkert á milli mála að ég myndi halda áfram hjá Stjörnunni hérlendis.
Ég var orðaður við einhver lið. Sumt af því var rétt og sumt var það ekki. En það var aldrei neitt sem var að fara að trompa það sem við höfum verið að byggja hérna,“ sagði hann.
Spurður hvernig honum litist á að reyna að verja Íslandsmeistaratitilinn á næsta tímabili sagði Hilmar Smári:
„Vonandi gengur það vel. Það verður ógeðslega erfitt, alveg eins og í vetur var það ótrúlega erfitt fyrir okkur að ná þessum titli. Það er kannski helmingurinn af deildinni sem stefnir alltaf að því að vinna þennan titil og það er bara eitt lið sem nær því.
Þegar allt kemur til alls er það ógeðslega erfitt. Þetta er ótrúlega mikil vinna og þú þarft mikla heppni sem dettur þín megin.
En ég held að við séum með þannig leikmannahóp hérna og þannig teymi í kringum okkur að við gerum allt til þess að gera það eins líklegt og við getum. Síðan verður það bara að ráðast á vellinum.“
Hann sagði það jákvætt að Stjarnan haldi svipuðum kjarna í leikmannahópnum.
„Já, algjörlega. Orri [Gunnarsson] er á samningi og það er eina ástæðan fyrir því að hann sat ekki með mér og Ægi [Þór Steinarssyni] hérna í dag. Þetta er kjarni sem fá önnur íslensk lið geta státað af og verið stolt af.
Það er geggjað að hafa þennan kjarna til þess að byggja á og búa til lið í kringum. Ég held að það séu flest öll lið á Íslandi til í að vera í þeirri stöðu sem Stjarnan er í,“ sagði Hilmar Smári að endingu.