Þó fyrrverandi landsliðsmaðurinn Brynjar Þór Björnsson sé kominn með nýtt starf í Álaborg í Danmörku er hann hvergi nærri hættur með körfuboltaæfingar sínar hérlendis.
Brynjar tók nýverið við sem íþróttastjóri hjá Aalborg Basektball Klub, eða Aalborg Vikings.
Hann hefur staðið fyrir ýmsum körfuboltanámskeiðum undanfarin ár og meðal annars körfuboltaæfingum fyrir fullorðna.
„Ég hef verið með körfuboltanámskeið fyrir krakka og síðan hafa verið körfuboltaæfingar fyrir fullorðna sem eru að fagna tíu ára afmæli á næsta tímabili. Þar hefur verið frábær þátttaka og mikil stemning.
Maður er alltaf í kringum körfuboltann, ég mun aldrei fara alveg frá honum,“ sagði Brynjar í samtali við mbl.is.
Æfingarnar verða áfram á Íslandi en Brynjar hefur fengið reynsluboltann Ragnar Ágúst Nathanaelsson til að þjálfa fyrir sig við miklar vinsældir.
„Maður reynir að hafa það þannig. Kallarnir í þessu eru það ánægðir. Raggi Nat er að þjálfa fyrir mig á Íslandi og hefur náð að halda fjöldanum og gæðunum ansi háum. Þeir eru gríðarlega ánægðir með hann. Það er ekkert að fara hætta von bráðar,“ bætti Brynjar við.