Biles vann einstakt afrek

Simone Biles í gólfæfingum í Bercy-höllinni í kvöld.
Simone Biles í gólfæfingum í Bercy-höllinni í kvöld. AFP/Lionel Bonaventure

Simone Biles frá Bandaríkjunum varð í kvöld Ólympíumeistari í fjölþraut í fimleikum á ný þegar hún vann öruggan sigur í keppninni í París.

Biles vann greinina í Ríó fyrir átta árum en dró sig úr keppni á leikunum í Tókýó árið 2021 vegna andlegra erfiðleika.

Hún er sú fyrsta í sögunni sem leikur þennan leik, að endurheimta titilinn í fjölþrautinni eftir að hafa ekki varið hann á næstu leikum á eftir.

Hin 27 ára gamla Biles fékk 59,131 stig og var 1,199 stigum á undan Rebecu Andrade frá Brasilíu sem hafnaði í öðru sæti. Ólympíumeistarinn frá 2021, hin bandaríska Sunisa Lee, fékk bronsið.

Með þessu hafa Bandaríkin hlotið gullverðlaunin í greininni á sex Ólympíuleikum í röð og sjö sinnum samtals.

Rebeca Andrade, Simone Biles og Sunisa Lee á verðlaunapallinum í …
Rebeca Andrade, Simone Biles og Sunisa Lee á verðlaunapallinum í kvöld. AFP/Loic Venance

Biles sjálf er komin með níu ólympíuverðlaun og þar af var þetta sjötta gullið. Hún getur bætt við þá tölu því hún á  eftir að keppa til úrslita á einstökum áhöldum þar sem hún keppir í stökki, gólfæfingum og jafnvægisslá.

Tvær konur í sögu leikanna hafa áður unnið gullið í fjölþrautinni á tvennum leikum en það eru Larisa Latynina frá Sovétríkjunum árin 1956 og 1960 og Vera Caslavska frá Tékkóslóvakíu árin 1964 og 1968.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert