„Tilfinningin er mjög góð. Ég er ánægð með eigin frammistöðu,“ sagði Thelma Björg Björnsdóttir eftir að hún hafnaði í sjöunda sæti í átta manna úrslitum í 100 metra bringusundi í SB5-flokki hreyfihamlaðra á Paralympics-leikunum í kvöld.
Thelma Björg synti á 1:58,62 mínútum eftir að hafa synt á 1:58,93 mínútum í undanúrslitunum í morgun.
Bætti hún þar með tíma sinn frá því í undanúrslitunum, alveg eins og Thelma Björg hafði ætlað sér.
Hún var að taka þátt á sínum þriðju Paralympics-leikum eftir að hafa einnig keppt í Tókýó fyrir þremur árum og í Ríó de Janeiro fyrir átta árum.
Hvernig fannst þér að taka þátt á þínum þriðju leikum?
„Það var mjög gaman og skemmtilegt,“ sagði Thelma Björg og bætti því við að það væri alltaf jafn skemmtilegt að taka þátt.
Áhorfendur í Paris La Défense Arena-höllinni í París létu vel í sér heyra í morgun og enn betur í kvöld. Spurð hvernig það hafi verið að upplifa enn meiri læti í höllinni í kvöld sagði Thelma Björg:
„Maður verður bara að venjast því.“
Hún var þó ekki á því að hávaðinn truflaði sig, frekar að hann hvetti Thelmu Björg til dáða og hjálpaði til.
Eftir að hafa hafnað í áttunda sæti í Tókýó og sjöunda sæti í París kvaðst hún ánægð með árangurinn.
„Já, ég er sátt við þetta,“ sagði Thelma Björg að lokum í samtali við mbl.is.