Sonja hafnaði í tólfta sæti

Sonja Sigurðardóttir einbeitt eftir 50 metra baksundið í gær.
Sonja Sigurðardóttir einbeitt eftir 50 metra baksundið í gær. Ljósmynd/ÍF

Sonja Sigurðardóttir hafnaði í tólfta sæti í undanúrslitum í 100 metra sundi með frjálsri aðferð í S3-flokki hreyfihamlaðra á Paralympics-leikunum í París í morgun og komst þar með ekki áfram í átta manna úrslitin sem fara fram síðdegis.

Sonja synti á tímanum 2:32,31, en Íslandsmet hennar í greininni er 2:22,15 mínútur, sem hún setti á Opna Evrópumeistaramótinu í Funchal í Portúgal í apríl síðastliðnum.

Þar með hefur Sonja lokið keppni á Paralympics-leikunum í ár, hennar þriðju á ferlinum, en Sonja hafnaði í sjöunda sæti í úrslitum 50 metra baksunds, einnig í S3-flokki, og sló um leið eigið Íslandsmet í gær.

Allir fimm íslensku keppendurnir hafa nú lokið keppni. Paralympics-leikunum lýkur sunnudaginn 8. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert