Árs bann fyrir að reyna að kaupa kókaín

Tom Craig í leik með ástralska landsliðinu.
Tom Craig í leik með ástralska landsliðinu. AFP/Dibyangshu Sarkar

Tom Craig, leikmaður karlaliðs Ástralíu í hokkí, hefur verið úrskurðaður í eins árs bann af Hokkísambandi Ástralíu eftir að hann var handtekinn í París, grunaður um að hafa reynt að kaupa kókaín.

Craig tók þátt á Ólympíuleikunum í borginni og var handtekinn nokkrum dögum eftir að ástralska liðið féll úr leik í átta liða úrslitum í hokkí.

Honum var sleppt úr haldi án ákæru en fékk aðvörun frá dómara.

Bannið tók gildi þann 9. september og á Craig möguleika á því að vera valinn í landsliðið á næsta ári.

Eftir að honum var sleppt úr haldi baðst Craig afsökunar á gjörðum sínum og kvaðst hafa gert hræðileg mistök.

Hokkísamband Ástralíu hefur tilkynnt að bannið feli í sér að Craig þurfi að sækja námskeið og fái allan þann stuðning sem hann þurfi á að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert