„Líklega ein af mínum verstu frammistöðum“

Chase Ealey í þann mund að varpa kúlunni í dag.
Chase Ealey í þann mund að varpa kúlunni í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Bandaríkjakonan Chase Ealey, heimsmeistari í kúluvarpi utanhúss, tók í dag þátt á Reykjavíkurleikunum annað árið í röð þegar hún keppti innanhúss í frjálsíþróttahöll Laugardalshallarinnar.

„Ég kom hingað á síðasta ári og þetta er mjög góð samkoma, ég kann mjög vel við þetta mót. Þegar ég var beðin um að koma aftur vildi ég mjög gjarna gera það burtséð frá öllu. Mér líkar þetta mót og landið.

Ég tem mér það að fara á staði sem mér líkar vel við. Jafnvel þó að ég sæi ekki fram á að vinna neitt myndi ég samt koma hingað því ég kann mjög vel við mig hér og fólkið hér,“ sagði Ealey í samtali við mbl.is.

Glímir við sín fyrstu meiðsli

Hún hafði betur gegn sínum eina keppinaut, Englendingnum Serenu Vincent, í dag með því að kasta lengst 17,90 metra, sem er talsvert frá því besta hjá Ealey.

„Þetta var líklega ein af mínum verstu frammistöðum í svolítið langan tíma en ég er að vinna mig í gegnum meiðsli. Ég stend auðvitað föst á því að reyna ekki að afsaka mig á neinn hátt en þetta eru fyrstu meiðslin sem ég lendi í þannig að ég held ég sé bara að reyna að tjasla mér saman.

Ég hef í raun aldrei verið í þessari stöðu. Mér líður samt vel því ég náði einu góðu kasti og upphitunin var mjög góð. Öll jákvæð skref eru góðs viti fyrir mig,“ sagði hún um frammistöðu dagsins.

Ealey einbeitt á svip í Laugardalshöllinni í dag.
Ealey einbeitt á svip í Laugardalshöllinni í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Spurð hvort meiðslin væru alvarleg sagði Ealey:

„Nei, þetta er í raun ekkert það slæmt en ég meiddist á síðunni, sem er mjög mikilvægur vöðvi hvað hreyfingar mínar í íþróttinni varðar. Þetta er svona aðeins að þvælast fyrir mér.“

Stundum skrítið að keppa innanhúss

Sem áður segir er hún ríkjandi heimsmeistari í kúluvarpi kvenna utanhúss. Er hún betri utandyra?

„Ég var það en ég vann til silfurverðlauna á HM innanhúss á síðasta ári, þannig að ég er ekki sem verst. Ég var aldrei mjög góð innanhúss en ég varð betri með því að keppa oftar í Evrópu þar sem utanhúss kúlurnar eru notaðar innanhúss.

Ég held að á heildina litið sé ég betri utandyra. Ég er stöðugri þar og líður betur. Mér finnst það stundum svolítið skrítið að keppa í innanhúshöllum vegna þaksins og því að völlurinn og svæðið er ekki jafn opið,“ útskýrði Ealey.

Ætla aðeins að hvíla rifbeinin

Nóg af mótum eru fram undan hjá henni.

„Þetta var fyrsta stopp á eins konar túr. Ég er á leiðinni til Bandaríkjanna til að keppa á nokkrum mótum þar og svo fer ég aftur til Spánar.

Í kjölfarið ætla ég aðeins að hvíla rifbeinin svo ég verði vonandi upp á mitt besta þegar utanhúss tímabilið hefst, þar sem það eru mikilvæg mót fram undan þar,“ sagði Ealey að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert