Sú fyrsta frá Íslandi

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir Ljósmynd/Skautasamband Íslands

Það var mikið um að vera í Skautahöllinni í Laugardal á Reykjavíkurleikunum um helgina, þar sem alþjóðleg keppni í listskautum stóð yfir. 

Talsverður fjöldi keppenda var kominn til Íslands til að freista þess að ná lágmörkum inn á alþjóðleg stórmót en RIG er hluti af gildum mótum Alþjóðaskautasambandsins og geta skautarar sem keppa þar náð lágmörkum inn á alþjóðleg úrslitamót eins og heimsmeistaramót og Evrópumót.  

Því miður setti veðrið strik í reikninginn og ekki komust allir á mótið sem ætluðu sér að taka þátt.

Drengjaflokkur hóf keppnina og tveir keppendur komu erlendis frá. Leon Lo, frá Hollandi, vann flokkinn með 79.64 heildarstig og Viktor Duchene, frá Frakklandi, var svo í öðru sæti með 78.14 heildarstig.

Í Advanced Novice girls (stúlknaflokkur) voru 11 keppendur og þar af voru átta frá Íslandi. Floor van der Pas, frá Hollandi, lenti í fyrsta sæti með 96.73 heildarstig, Lea Marie Castlunger, frá Ítalíu, lenti í öðru sæti með 85.16 heildarstig og Elín Katla Sveinbjörnsdóttir, frá Íslandi, lenti í þriðja sæti með 83.00 heildarstig.

Á laugardaginn var keppni í unglingaflokki drengja og forfallaðist einn keppandi þar og sigraði því Wendell Hansson-Ostergaard, frá Danmörku, flokkinn með 122.98 heildarstig.

Í unglingaflokki kvenna voru sjö keppendur mættir til leiks og þar af tveir íslenskir. Eftir stutta prógrammið var í fyrsta sæti Cathryn Limketkai, frá Filippseyjum, með 51.14 stig. Jenni Hirvonen, frá Finnlandi, var í öðru sæti með 44.71 stig og í  þriðja sæti var svo Cecilia Donohue, frá Argentínu, með 42.57 stig.

Eftir seinni keppnisdag var Jenni Hirvonen í fyrsta sæti með 126.65 heildarstig, Cathryn Limketkai lenti í öðru sæti með 124.16 heildarstig og Cecilia Donohue var svo í þriðja sæti með 105.90 heildarstig. Lena Rut Ásgeirsdóttir, frá Íslandi, var þar rétt á eftir í fjórða sæti með 104.79 í heildarstig.

Tveir keppendur voru skráðir í fullorðinsflokk karla en einn forfallaðist. Connor Bray, frá Bretlandi, stóð sig ágætlega í stutta prógramminu og fékk 53.10 stig. Seinni daginn lauk hann keppni með 132.43 í heildarstig.

Keppni í fullorðinsflokki kvenna hafði sterka skautara. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir keppir í þessum flokki. Júlía Sylvía stóð sig vel og var í öðru sæti eftir fyrri daginn með 40.35 stig. En í fyrsta sæti eftir daginn var Tara Prasad, frá Indlandi, með 45.98 stig og í þriðja sæti var Roos van der Pas, frá Hollandi, með 34.57 stig.

Seinni daginn var það svo Júlía Sylvía sem var efst, Ross van der Pas önnur og Tara Prasad sú þriðja.

Samanlagður sigurvegari í fullorðinsflokki kvenna var Júlía Sylvía Gunnarsdóttir með 128.27 heildarstig, Tara Prasad í öðru sæti með 123.90 heildarstig og Roos van der Pas með 113.48 heildarstig.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur skautari fær gullverðlaun í fullorðinsflokki á alþjóðlegu móti á listskautum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert