„Þetta var fínn dagur en þetta hefði mátt fara aðeins betur,“ sagði FH-ingurinn Irma Gunnarsdóttir í samtali við mbl.is eftir að hún stóð uppi í sem sigurvegari í langstökki á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll í dag.
„Atrennan var aðeins að stríða mér. Ég var ekki að hitta nægilega vel á plankann fyrr en í síðasta stökkinu,“ bætti hún við.
Irma stökk lengst 6,20 metra, en hún á best 6,45 metra frá því á Stórmóti ÍR í byrjun árs. Þá stóð hún uppi sem sigurvegari á móti í Árósum um síðustu helgi og er því að gera góða hluti í upphafi nýs árs.
„Þetta ár hefur byrjað mjög vel. Ég bætti mig áður en ég fór til Danmerkur og svo gekk vel þar. Þetta lofar góðu fyrir næstu mót, það er nóg af keppnum fram undan,“ sagði hún. Íslandsmet Hafdísar Sigurðardóttur í greininni innanhúss er 6,54 metrar.
„Markmiðið er að ná þessu Íslandsmeti og ég er að færast nær því. Ég fer á Norðurlandamótið um næstu helgi og svo er það meistaramót Íslands og svo bikar í lok tímabilsins. Það er nóg fram undan,“ sagði Irma.
Öll úrslit í frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna má nálgast hér.