Hollenski ólympíufarinn Naomi Sedney kom fyrst í mark í 60 metra hlaupi kvenna á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll í dag. Hún býr á Íslandi með kærasta sínum og knattspyrnumanninum Ívari Erni Jónssyni úr HK.
„Þetta var góður dagur og gott hlaup. Það er gott að fá alvöruhlaup hér og skemmtilegt að kærastinn gat mætt,“ sagði hún við mbl.is eftir hlaupið.
„Ég er nokkuð sátt en á sama tíma ósátt. Þetta var frekar gott hlaup en ég vildi ná betri tíma. Ég byggi á þetta og verð hraðari í næstu hlaupum,“ bætti hún við.
Sedney kom í mark á 7,49 sekúndum. Viktoria Bindslev frá Danmörku og hin 13 ára Freyja Nótt Andradóttir komu þar á eftir jafnar á 7,63 sekúndum. Freyja náði í fyrra besta tíma sögunnar hjá 12 ára stúlku.
„Það er erfitt að spá fyrir þegar maður sér ungt fólk fara svona hratt. Það er ótrúlegt hvað hún er að hlaupa hratt núna. Hún er að hlaupa töluvert hraðar en ég var að gera á hennar aldri.
Það verður gaman að sjá hvernig þetta þróast hjá henni næstu 5-10 ár. Hún á margt fram undan. Hún á eftir að þroskast líkamlega og sem manneskja. Hún er enn þá bara krakki og það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þetta fer hjá henni,“ sagði Sedney um Freyju.
Sedney fer aftur til Hollands eftir helgi og keppir m.a. á meistaramóti Hollands. Hún býr á Íslandi en ferðast reglulega til Hollands til að æfa og keppa.
„Ég bý fyrst og fremst á Íslandi en ég fer til Hollands reglulega til að æfa og keppa því það eru fáar keppnir hér á landi fyrir mig. Ég keppi líka í boðhlaupunum og þá verð ég að æfa með liðsfélögum mínum,“ sagði sú hollenska.
Öll úrslit í frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna má nálgast hér.