Hinn 18 ára gamli Mikael Aron Vilhelmsson sigraði á Reykjavíkurleikunum í keilu sem lauk á sunnudagskvöldið en mótið í ár var hluti af Evrópumótaröðinni í íþróttinni.
Hann varð þar með annar Íslendingurinn í sögunni til að vinna mót á Evrópumótaröðinni (EBT Tour). Áður hafði Arnar Davíð Jónsson leikið þann leik tvisvar.
Í úrslitaleiknum vann Mikael sigur á William Svensson frá Svíþjóð með 216 pinnum gegn 184. Daninn Carsten Trane varð þriðji og Pólverjinn Adam Pawel Blaszczak, sem vann Reykjavíkurleikana 2022, hafnaði í fjórða sæti.
Til að komast í undanúrslitin þurfti Mikael að vinna hina 14 ára gömlu Særósu Erlu Jóhönnudóttur sem hafði áður gert sér lítið fyrir og slegið Arnar Davíð út úr keppninni. Mikael vann þann leik naumlega, 279:275.
Mikael er í karlalandsliðinu í keilu sem keppir á Evrópumótinu í Álaborg í júní en hann mun einnig keppa á Evrópumóti U18 ára í Tyrklandi og heimsmeistaramóti U21 í Svíþjóð á næstu mánuðum.