Bankaráð Búnaðarbanka Íslands hf. og stjórn Kaupþings banka hf. samþykktu í dag að leggja til við hluthafafundi bankanna að þeir verði sameinaðir og á sameinaði bankinn að heita Kaupþing Búnaðarbanki hf. Hluthafar Kaupþings banka hf. eiga að fá um 51,77% í hinum sameinaða banka en hluthafar Búnaðarbanka Íslands hf. um 48,23%. Hlutaféð verður allt að 4.155.000.000 króna að nafnvirði eða 415.500.000 hlutir. Bankinn verður skráður í Kauphöll Íslands og í Kauphöllinni í Stokkhólmi í Svíþjóð.
Kaupþing Búnaðarbanki hf. verður stærsti banki landsins, verðmætasta skráða fyrirtækið í Kauphöll Íslands og í hópi 10 stærstu banka á Norðurlöndum. Stefnt er að því að 30. maí nk. verði fyrsti starfsdagur sameinaðs banka.
Bankaráð BÍ og stjórn Kaupþings banka telja að sameiningin auki arðsemi fyrir hluthafa og tryggi viðskiptavinum enn betri og víðtækari þjónustu. Ná megi aukinni hagkvæmni í rekstri og rekstrartengdum fjárfestingum með það að markmiði að arðsemi eigin fjár til lengri tíma verði 15%, arðgreiðslur nemi 10 til 30% af hagnaði bankans og eiginfjárhlutfall verði ekki lægra en 10%.
Stærstu hluthafar sameinaðs banka eru Egla ehf. (9,43%), fjármálaráðuneytið (8,84%), Meiður ehf. (8,16%), hlutabréf skráð í Svíþjóð (6,20%), Lífeyrissjóður verzlunarmanna (4,17%) og Íslandsbanki hf. (3,95%). Tillaga er um að starfandi stjórnarformaður verði Sigurður Einarsson, varaformaður verði Hjörleifur Jakobsson, en Hreiðar Már Sigurðsson og Sólon R. Sigurðsson verði forstjórar.