Englandsbanki stefnir að breytingum á reglum sem gilda um starfsemi erlendra fjárfestingabanka í Bretlandi.
BBC segir að Englandsbanki sé að setja nýju reglurnar til þess að komast hjá öðru Icesave-máli og bankabjörgun. Tvö meginmarkmið hafi einkennt breskan bankamarkað frá fjármálakreppunni; að gera bankana öruggari og að auka lánastarfsemi.
Þeim verður áfram óheimilt að bjóða upp á innlánsstarfsemi en sú regla var sett í kjölfar þess að breskir sparifjáreigendur töpuðu innistæðum sínum við hrun íslenska bankakerfisins, samkvæmt frétt TopNews.
Í frétt Telegraph kemur fram að nýjar reglur breska bankaeftirlitsins, Prudential Regulation Authority (PRA), séu þær fyrstu sem beint er eingöngu að bönkum frá ríkjum utan Evrópusambandsins sem hafa hug á að veita fjármálaþjónustu í Bretlandi.
Verða fjármálaeftirlit viðkomandi ríkja að standast kröfur þess breska og hafa yfirsýn yfir starfsemi sinna banka í Bretlandi. Ef viðkomandi eftirlit stenst ekki kröfur breskra eftirlitsstofnana eigi fjármálafyrirtæki frá viðkomandi ríkjum á hættu að fá ekki að hefja starfsemi í Bretlandi.
Samkvæmt frétt Telegraph var reynslan af íslensku bönkunum breskum eftirlitsstofnunum ofarlega í huga þegar kom að setningu nýrra regla. Er vísað til þess að íslensku bankarnir hafi getað komið upp starfsemi í Bretlandi fyrir kreppu sem endaði með því að bresk yfirvöld hafi þurft að ábyrgjast innistæður viðskiptavina íslensku bankanna í Bretlandi.