„Þetta er afar jákvætt fyrsta skref í afnámi hafta,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, en lífeyrissjóðirnir fá að fjárfesta erlendis fyrir um tíu milljarða króna á þessu ári, að því er fram kom í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands í gær.
Heimildin, tíu milljarðar króna, kemur til með að skiptast milli sjóðanna með þeim hætti að annars vegar verður horft til stærðar sem fær 70% vægi og hins vegar verði horft til hreins innstreymis sem fær 30% vægi.
Tilkynningin er í samræmi við það sem fram kom á kynningarfundi ríkisstjórnarinnar um afnámsáætlunina í seinasta mánuði. Þar kom fram að sjóðirnir fengju að fjárfesta fyrir tíu milljarða króna á ári næstu fimm árin.
Þórey segir fjárhæðirnar heldur lágar en bendir á að heimildir sjóðanna gætu verið rýmkaðar ef svigrúm gefst. „Maður heyrir á seðlabankastjóra að við megum eiga von á frekari heimildum á næsta ári, ef fram horfir í samræmi við væntingar bankans,“ segir hún.
Lífeyrissjóðirnir þurfi að fá að fjárfesta fyrir meira en tíu milljarða á ári eigi hlutfall erlendra eigna þeirra að fara hækkandi.
Hlutfall erlendra eigna sjóðanna af heildareignum nemur um 24 prósentum, en Þórey segir að 40-50% hlutfall sé eðlileg áhættudreifing fyrir sjóðina. „Það er mjög mikilvægt að geta dreift eignunum víðar en bara í íslenska hagkerfinu.“ Þetta snúist fyrst og fremst um áhættudreifingu.
Lífeyrissjóðirnir áttu 685 milljarða í erlendum eignum um síðustu áramót, en þeir hafa ekki mátt fjárfesta út fyrir landsteinana frá því að gjaldeyrishöftin voru sett á í nóvember árið 2008, bráðum í sjö ár.
Frétt mbl.is: Opna á erlendar fjárfestingar