Guðmundur Magnússon Höskuldur Daði Magnússon Magnús Heimir Jónasson
Það mikla magn fjár og fíkniefna sem lögreglan lagði hald á við handtöku á þremur Pólverjum sem eru grunaðir um stórfelldan fíkniefnainnflutning og peningaþvætti sýnir hversu stór fíkniefnamarkaðurinn er orðinn hér á landi.
Þetta er mat Helga Gunnlaugssonar afbrotafræðings. Hann segir umfangið staðfesta að fíkniefnaneysla sé ekki lengur bundin við jaðarhópa hér. Þrír menn sitja í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Lögregla kyrrsetti fasteignir og lagði hald á hlutabréf, fjármuni og bíla að verðmæti 200 milljónir króna. Götuverðmæti fíkniefnanna gæti numið allt að 400 milljónum króna.
Íslenskir bankar hafa brugðist við auknum tilraunum til fjársvika og peningaþvættis að undanförnu. Í Landsbankanum hefur verið fjölgað sérhæfðu starfsfólki sem annast eftirlit auk reglulegra tilkynninga til peningaþvættisskrifstofu og samskipta við lögreglu. Þá hefur verið fjárfest í tölvukerfum sem gera eftirlit og áhættumat með slíkum málum skilvirkara. Rafrænt eftirlitskerfi bankans greinir óeðlilegar færslur og kannar hvort viðskipti tengist aðilum á válistum, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.