Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður nokkurra einstaklinga sem vilja að íslenskir viðskiptabankar útskýri betur í skilmálum lánasamninga hvernig þeir taka ákvarðanir um vaxtahækkanir breytilegra fasteignalána, segir í samtali við Morgunblaðið að Héraðsdómur Reykjaness hafi nú ákveðið að beina spurningu vegna skilmála í lánasamningum Íslandsbanka til EFTA-dómstólsins. Málin voru höfðuð í tengslum við vaxtamál Neytendasamtakanna. Milljarða hagsmunir eru í húfi.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu á síðasta ári beindi Héraðsdómur Reykjavíkur lykilspurningu í öðru svipuðu máli, sem snýr að lánasamningum Landsbankans, til sama dómstóls síðastliðið sumar og er sú málsmeðferð hafin.
„Spurningin sem Héraðsdómur Reykjaness beinir nú til EFTA-dómstólsins er ekki ólík þeirri sem Héraðsdómur Reykjavíkur gerði. Skilmálinn hjá Íslandsbanka er þó að nokkru leyti annars konar en í hinu málinu,“ segir Ingvi Hrafn.
Spurningin sem Héraðsdómur Reykjavíkur beindi til dómstólsins í fyrra var hvort skilmálarnir uppfylltu þá kröfu sem mælt er fyrir um í tilskipun um lánssamninga fyrir neytendur, um að vera skýrir, aðgengilegir, hlutlægir og sannprófanlegir fyrir lántaka. Spurningin til EFTA-dómstólsins um skilmála Íslandsbanka er byggð á sömu atriðum.
Spurður um þýðingu málsins ef það vinnst og helstu afleiðingar, segir hann að það fari eftir því hvort ítrustu kröfur verði samþykktar. „Það er m.a. deilt um hvernig fyrning kemur inn í útreikning og endurkröfur og hvernig endurkröfur verða reiknaðar út.“
Ingvi Hrafn segir að einn banki, Íslandsbanki, hafi í ársreikningi talað um fjárhagslegar afleiðingar ef málið tapast. Þar sé rætt um 3-5 milljarða niðurfærslu á lánasafni bankans.
Lestu ítarlegri umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.