Ytri aðstæður spái fyrir um neyslu

Stefán Baxter framkvæmdastjóri Snjallgagna.
Stefán Baxter framkvæmdastjóri Snjallgagna. Ljósmynd/Aðsend

Viðskiptagreindin Context Suite nýtir gervigreind til að búa til spálíkön um sölu, rekstur og þjónustu fyrirtækja. Framkvæmdastjóri Snjallgagna, sem stendur að baki vörunni, segir hana talsvert áreiðanlegra spálíkan en áður hefur tíðkast. Hún nýti bæði gervigreind og víðtækari upplýsingar en áður til að spá fyrir um neyslu og aðsókn frá degi til dags.

Ytri upplýsingar skipti sköpum fyrir spána

Mbl.is náði tali af Stefáni Baxter, framkvæmdarstjóra Snjallgagna. Hann segir nýja spálíkanið geta áætlað út frá meiri upplýsingum en áður hafa verið nýttar, svo sem ytri aðstæðum. Hann kallar þetta aðstæðuvitund sem gervigreindin geti búið yfir. Hún geti gert ráð fyrir til dæmis veðurfari, dagskránni í sjónvarpinu eða fjölda ferðamanna á tilteknu svæði.

„Með því að bæta þessum ytri þáttum og aðstæðuvitund við hefur okkur tekist að bæta svona spálíkön svo að það er hægt að taka mark á þeim frá degi til dags.“ Hann segir líkönin talsvert nákvæmari en áður hefur tíðkast. „Spálíkanið er strax mjög gott. Við fundum að í hvert skipti sem við bættum við upplýsingaflokki batnaði útkoman.“

„Ef þú rekur fyrirtæki, t.d. matvöruverslun, þarf helst að vera til spá sem er mjög rétt,“ segir Stefán. Þá geti fyrirtæki vitað hve mikið eigi að panta af vörum og hve marga starfsmenn þurfi að hafa á vakt frá degi til dags.

Nota ekki persónuupplýsingar

Stefán tekur sérstaklega fram að persónuupplýsingar séu ekki nýttar til að spá fyrir um neysluhegðun. Upplýsingarnar sem líkanið notist við séu á talsvert stærri skala, svo sem hvort að Eurovision sé í sjónvarpinu eða íþróttamót í uppsiglingu.

Stefán segir það mikla vinnu að safna saman þessum ytri upplýsingum. Það sé sennilega ástæðan fyrir því að fyrirtæki nota þær ekki nú þegar í spálíkönum sínum. 

Spjallmenni í þróun 

Snjallgögn eru að þróa spjallmenni sem getur veitt upplýsingar um og selt ferðir. Hann tekur dæmi þess að biðja spjallmennið að skipuleggja ferð á tiltekinn stað og tilteknum tíma. Hann segir að spjallmennið muni geta skipulagt ferðina með hliðsjón af veðri. Það muni einnig geta stungið upp á viðburðum sem eiga sér stað í grenndinni á sama tíma. 

„Það er aukin innsýn og ákveðnir töfrar þegar hægt er að nota ytri aðstæður í svona líkönum,” segir Stefán.  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK