Símtalið í desember gæti falið í sér innherjaupplýsingar

Tilkynnt var um síðustu helgi að Landsbankinn hyggðist kaupa TM.
Tilkynnt var um síðustu helgi að Landsbankinn hyggðist kaupa TM. mbl.is/Árni Sæberg

Ágreiningur ríkir um það hvort að bankaráð Landsbankans hafi fullnægt upplýsingaskyldu sinni gagnvart Bankasýslu ríkisins í aðdraganda kaupa bankans á tryggingarfélaginu TM. Þá hafa einnig komið fram sjónarmið um það hvort að upplýsingar til Bankasýslunnar hafi verið nægilegar gagnvart markaðinum, þar sem Bankasýslan er ekki eini eigandi Landsbankans.

Um þetta er fjallað í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála, þar sem ítarlega er rætt um kaup Landsbankans á TM sem tilkynnt var um í síðustu viku. Í þættinum ræða viðskiptablaðamennirnir Hörður Ægisson frá Innherja og Stefán Einar Stefánsson frá Morgunblaðinu um viðskiptin og þau atriði sem að þeim snúa og hafa verið til umræðu frá því að tilkynnt var um kaupin.

Íslenska ríkið á sem kunnugt er um 99% hlut í Landsbankanum, til móts við nokkuð hundruð starfsmenn bankans. Í þætti Þjóðmála veltir Stefán Einar því upp hvort að símtal sem Helga Björk Ei­ríks­dótt­ir, formaður bankaráðs Landsbankans, átti við Tryggva Pálsson, stjórnarformann Bankasýslunnar, í desember sl., þar sem fram kom að bankinn hefði áhuga á því að kaupa TM af Kviku banka eftir að söluferli TM var hafið, hafi verið í samræmi við reglur um innherjaupplýsingar.

„Nú er Landsbankinn líka með skráð skuldabréf á markaði og þetta geta verið verðmyndandi upplýsingar á skuldabréfamarkaði, alveg eins og ef bankinn væri skráður á hlutabréfamarkað,“ segir Stefan Einar í þættinum og veltir því upp hvort það geti talist nægilegt að upplýsa aðeins einn hluthafa um áhuga bankans á kaupunum. Að sama skapi sé Kvika banki skráð á markað en á þessum tímapunkti var það ekki opinbert að Landsbankinn hefði hug á því að kaupa TM af Kviku banka.

Málið hefur einnig verið rætt á þessum nótum meðal markaðsaðila sem Morgunblaðið hefur rætt við í vikunni. Í fyrrnefndum hlaðvarpsþætti er einnig rætt um það hvort að heppilegt sé að ríkið sé eigandi að fjármálafyrirtækjum, hvort að upplýsingaskyldu hafi verið fullnægt í málinu og margt fleira sem að þessu snýr. Sem kunnugt er lýsti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra því yfir í hlaðvarpi Þjóðmála í byrjun febrúar að henni hugnaðist ekki fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM, en þá var hún spurð út í orðróm þess efnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka