Segir óábyrgt að skipta út öllu bankaráðinu

Helga Björk Eiríksdóttir.
Helga Björk Eiríksdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, segir óábyrgt af Bankasýslu ríkisins að skipta út öllu bankaráði Landsbankans í einu. „Það er mikil vinna og umfangsmikið starf sem þarf að komast inn í til að sinna störfum í bankaráðinu,“ segir Helga í samtali við mbl.is.

Þá gagnrýnir hún ummæli Bankasýslunnar um störf og ákv­arðanir bankaráðs Lands­bank­ans og telur þau ósanngjörn í garð starfsmanna.

Ummæli Bankasýslunnar ósanngjörn

Bankasýsla ríkisins hefur gagnrýnt störf og ákvarðanir bankaráðs Landsbankans og gerði fjölmargar athugasemdir við kaup bankans á TM í skýrslu sinni sem birtist á föstudag.

Tryggvi Páls­son, formaður Banka­sýslu rík­is­ins, tjáði sig um málið í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins í dag. Þar sagði hann trúnaðarbrest hafa orðið milli stjórn­ar Banka­sýsl­unn­ar og bankaráðs Lands­bank­ans. Hann seg­ir það bíða nýs bankaráðs að vinna úr þeirri flækju sem upp er kom­in eft­ir að Lands­bank­inn keypti TM í trássi við vilja eig­anda bank­ans.

Helga segir ummæli Tryggva ósanngjörn í garð starfsfólks Landsbankans þar sem áhættumenningin er mjög góð í bankanum. 

„Það er mjög fagleg og löng vinna og aðdragandi að þessu tilboði. Það er bara verið að vega illilega að öllum sem vinna fyrir Landsbankann,“ segir Helga um ummælin. 

Þá segir hún Bankasýsluna hafa haft nægan tíma til að óska eftir upplýsingum og fundum um þess viðskipti eða síðan 20. desember síðastliðinn. Hún bætir við að Bankasýslan hafi ekki óskað eftir fundi eða samtölum um kaupin fyrr en eftir að þau voru gerð.

Bankaráð Lands­bank­ans og Banka­sýsl­an hafa fundað tvisvar síðan þá. Á fund­in­um var rætt um kaup bank­ans á TM og stöðu mála en Helga vildi ekki fara nánar út í hvað var rætt.

Samskiptin mátt vera betri

Spurð hvort málið kalli á annað skipulag segir Helga alveg skýrt að samskipti bankaráðs eigi að fara í gegnum Bankasýsluna og Bankasýslan eigi að vera í samskiptum við ráðuneytið. Þannig sé bankaráð ekki í samskiptum við ráðherra eða ráðuneytið. 

„Það er þessi armslengd sem ég held að allir ættu að virða betur.“

Hún telur þó að samskiptin hefðu mátt vera betri milli aðila. 

Kveður bankaráð eftir 11 ára starf

Eins og áður hefur komið fram tilkynnti Bankasýslan að nýir einstaklingar yrðu tilnefndir í bankaráð Lands­bank­ans á aðal­fundi hans nú á föstudag. Bankasýslan tilnefnir í stjórn bankaráðs. Þá getur hver sem er boðið sig fram en sá framboðsfrestur er runnin út. 

Helga Björk gaf ekki kost á sér í bankaráð en hún hef­ur setið í ráðinu frá ár­inu 2013 og verið formaður þess frá ár­inu 2016.

Spurð hvort sú ákvörðun hafi reynst henni erfið segir Helga svo ekki vera. Hún hafi ákveðið fyrir nokkru að skilja við bankaráðið ásamt varaformanni ráðsins. Ákvörðunin hefur því ekkert að gera með kaup bankans á TM.

Gengur sátt frá borði

Helga óskar nýju bankaráði Landsbankans velfarnaðar í sínum störfum en hún mun hætta störfum á föstudag þegar nýtt bankaráð verður skipað.

Spurð hvort hún gangi sátt frá borði segist Helga vera afar sátt með störf sín fyrir Landsbankann. Þá seg­ir hún ganga mjög vel hjá bank­an­um og bæt­ir við að hann hafi vaxið mikið undanfarin ár og reksturinn sé mjög traustur. Greiddur hafi verið 192 millj­arður í arð til hlut­hafa síðan 2013.

„Það geng­ur bara mjög vel hjá bank­an­um, þannig að ég get ekki annað en farið stolt frá borði þrátt fyrir að viðskiptin með TM hafi valdið uppnámi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka