„Ég á þetta ekki, ég má þetta“

Enn harðnar hnútukastið milli fráfarandi bankaráðs Landsbankans og formanns stjórnar Bankasýslu ríkisins.

Það gerist í kjölfar ítarlegs viðtals við Tryggva Pálsson, formann stjórnar Bankasýslunnar í Dagmálum sem birt var á mbl.is á miðvikudag.

Í kjölfar þess sá bankaráð Landsbankans sig knúið til þess að bregðast við og sendi frá sér yfirlýsingu, enda ljóst að þeir sem það skipa telja vegið að mannorði sínu í þessum hjaðningavígum sem eiga sér vart hliðstæðu í íslenskri bankasögu.

Andar köldu

Ekki er laust við að köldu hafi andað milli bankaráðsins og Bankasýslunnar síðustu vikur en allt ætlaði um koll að keyra þegar Landsbankinn tilkynnti það 17. mars að hann hefði fest kaup á Tryggingafélaginu TM fyrir tæpa 30 milljarða króna. Seljandinn er Kvika banki.

Þótti mörgum sérstakt að þessi viðskipti hefðu gengið í gegn, ekki síst í ljósi þess að þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, hafði nokkru áður lýst þeirri eindregnu skoðun sinni, í hlaðvarpi Þjóðmála, að hún væri mótfallin því að bankinn keypti TM.

Vísaði hún í því sambandi til stefnu stjórnvalda um að minnka umsvif hins opinbera á fjármálamarkaði.

Þá hefur síðar verið upplýst að Þordís Kolbrún átti fund með Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans þann 21. febrúar þar sem hún ítrekaði þá skoðun sína að hún teldi ekki rétt að auka umsvif ríkisins á fjármálamarkaði. Átti sá fundur sér stað degi fyrir bankaráðsfund.

Hefur Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar spurt hvort þarna megi glitta í bein afskipti ráðherra af bankanum, en Bankasýslu ríkisins var komið á fót upphaflega til að tryggja „armslengd“ milli stjórnmálanna og þeirra fjármálafyrirtækja sem enduðu í fangi ríkisins í kjölfar bankaáfallsins 2008.

Í fyrrnefndu viðtali í Dagmálum lét Tryggvi Pálsson þau orð falla að margt í þessu máli benti til þess að viðhorf stjórnenda Landsbankans væri það að þótt þeir ættu ekki bankann þá gætu þeir farið sínu fram.

Ræður eigandinn för?

Í kjölfar bankahrunsins, þegar stærstu eigendur endurreistra banka voru skilanefndir í nafni kröfuhafa, varð vart við þá hugsun meðal stjórnenda bankanna að þeir gætu farið sínu fram án þess að spyrja kóng eða prest. Tryggvi er í viðtalinu spurður hvort eimt hafi eftir af slíkum þankagangi í Landsbankanum þegar bankaráðið lagði fram skuldbindandi tilboð í tryggingafélagið TM þann 15. mars síðastliðinn.

„Ég vil ekki alveg fullyrða það. En þó er rétt að rifja upp hvert var mottóið fyrir hrun hjá ýmsum. Það var, „ég á það, ég má það“. Spurningin er, er nýtt að „ég á það ekki en ég má það?“

Ljóst er að það stefnir í kraftmikinn aðalfund Landsbankans á …
Ljóst er að það stefnir í kraftmikinn aðalfund Landsbankans á morgun.

Nokkur umræða skapaðist um afstöðu stjórnenda bankans til þess hver ráði í raun för á þeim bænum, daginn sem tilkynnt var um kaupinn. Voru það ekki síst ummæli bankastjórans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, sem rýnt var í.

Hafði hún í hádegisfréttum RÚV verið spurð að því hvort eðlilegt væri að ríkisbanki stæði í fjárfestingu af þessu tagi á tryggingamarkaði, ákvað hún að útskýra hvernig í eignarhaldinu lægi. Fullyrti hún að Landsbankinn væri ekki ríkisbanki heldur almenningshlutafélag þar sem ríkissjóður væri mjög stór hluthafi.

Að vera, eða ekki vera

Var Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, inntur viðbragða við þessu í þættinum Spursmálum nokkrum dögum síðar og tók hann þar af allan vafa um að Landsbankinn væri í raun ríkisbanki eftir allt saman.

Tvö atriði sem skera í augun

Tvennt hefur verið nefnt til sögunnar til marks um að bankaráðið hafi viljað tryggja kaupin á TM án þess að eigandinn eða Bankasýslan fyrir hans hönd, gæti brugðist við. Annars vegar sú staðreynd að tilboðið sem Landsbankinn gerði Kviku í fyrirtækið var fyrirvaralaust, þ.e. að ekki var gerður áskilnaður um samþykki hluthafafundar Landsbankans fyrir kaupunum.

Hitt er, og það nefndi Tryggvi sérstaklega í viðtalinu, að stjórnendur bankans ákváðu að ráðast í skuldabréfaútgáfu til að fjármagna kaupin á TM í stað þess að kanna t.d. möguleikann á hlutafjáraukningu sem einnig hefði verið fær leið. Fyrrnefnda leiðin var þeirrar gerðar að ekki þurfti að leita til hluthafa, en með hlutafjáraukningu hefði alltaf komið til þeirra kasta. Þar er ríkissjóður með hvorki meira né minna en 98,2% hlut.

Í fyrrnefndri yfirlýsingu fráfarandi bankaráðs er sérstaklega tekið fram að skuldabréfaleiðin hafi ekki verið farin í því augnamiði sem Tryggvi gefur til kynna, heldur aðeins til þess að styrkja eiginfjárgrunn fyrirtækisins. Sagði m.a. í yfirlýsingunni:

„Sú leið var val­in vegna þess að hún er til þess fall­in að viðhalda getu bank­ans til að greiða reglu­leg­ar arðgreiðslur til framtíðar, í sam­ræmi við mark­mið eig­anda­stefnu rík­is­ins. Þessi leið var tal­in hag­stæðust fyr­ir bank­ann og eig­end­ur hans. Ekki var þörf á út­gáfu nýs hluta­fjár, enda verða eig­in­fjár­hlut­föll bank­ans vel yfir lög­bundn­um mörk­um og mark­miðum bank­ans.“

Var Bankasýslan upplýst?

Í málinu öllu hefur verið deilt um hvort bankaráð Landsbankans hafi upplýst Bankasýsluna um fyrirhuguð kaup með þeim hætti sem kveðið er á um að það geri samkvæmt samningi sem gerður var árið 2010 og varðar samskipti ríkisins sem eiganda við hinn endurreista banka.

Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bankasýslan, bæði formaður stjórnar og forstjóri, hafa haldið því fram að ekkert hafi verið upplýst um fyrirætlan bankans. Því hafnaði bankaráðið og í bréfaskiptum sem af málinu leiddu vísaði formaður bankaráðsins til símtals milli sín og Tryggva Pálssonar þann 20. desember í fyrra þar sem hún upplýsti hann um áhuga Landsbankans á TM.

Hefur Tryggvi bent á að símtalið hafi varað í þrjár mínútur og fyrst og fremst snúist um launabónus til starfsfólks bankans. Ekkert hafi komið þar fram um skuldbindandi tilboð. Í fyrrnefndu viðtali í Dagmálum lýsir hann auk þess undrun á því að Landsbankinn, stærsta fjármálafyrirtæki landsins, hafi tekið ákvörðun sem þessa, í trássi við augljósan vilja eigandans og ekki bókað nokkuð um málið í samskiptum við Bankasýsluna. Ekki sé að finna nein tölvupóstsamskipti, bréf eða annað slíkt sem geri mönnum kleift að rekja málið.

Trúnaðarbrestur

Viðskiptin með TM hafa leitt af sér djúpstæðan trúnaðarbrest milli bankaráðs Landsbankans annars vegar og Bankasýslunnar og ríkissjóðs hins vegar. Þáverandi fjármálaráðherra var raunar mjög afdráttarlaus í sínum viðbrögðum og sagði að kaupin myndu ekki ganga í gegn með sínu samþykki. Síðan þá hefur Þórdís Kolbrún haft stólaskipti við Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins. Hefur hann verið nokkuð loðnari í svörum og sagt að málið sé í höndum nýs bankaráðs.

En skipan þess hefur einnig valdið nokkrum titringi. Í kjölfar þess að tilkynnt var um kaupin á TM krafðist Bankasýslan þess að aðalfundi Landsbankans, sem halda átti í mars, yrði frestað. Í kjölfarið gerði Bankasýslan nýja tillögu um stjórn og í stað þess að skipta út hluta bankaráðins er tillagan sú að ryðja aðalbekkinn með öllu.

Hefur Bankasýslan tilnefnt sjö nýja aðalmenn í ráðið en auk þeirra hafa þau Ásgeir Brynjar Torfason og Kristín Vala Ragnarsdóttir tilkynnt um framboð til bankaráðsins. Í ljósi þess að Bankasýslan fer með 98,2% hlut í bankanum fyrir hönd ríkissjóðs verður að teljast helst til bjartsýnt af hálfu hinna tveggja síðastnefndu að sækjast eftir sæti í ráðinu.

Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans eru með glæsilegustu byggingum landsins. Ætli TM …
Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans eru með glæsilegustu byggingum landsins. Ætli TM verði komið fyrir í sömu salarkynnum? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkra athygli vekur að þótt allir aðalmennirnir hverfi úr bankaráðinu þá mun Sigurður Jón Björnsson, sem setið hefur sem varamaður í því, sitja sem fastast í því sæti sínu. Ekki hafa komið fram neinar skýringar á því af hverju hann situr þar einn eftir en sennilegt má telja að hann hafi ekki haft neina aðkomu að ákvörðuninni um kaupin á TM og því ekki í hópi þeirra sem Bankasýslan telji bera ríkasta ábyrgð í málinu.

Hver er staða bankastjórans?

Talsvert er skrafað um stöðu Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra, í kjölfar þessa atgangs alls. Ljóst er að nýtt bankaráð þarf að taka afstöðu til hennar verka og annarra stjórnenda bankans, í tengslum við kaupin á TM.

Tryggvi Pálsson hefur verið afdráttarlaus um að Bankasýsla ríkisins álíti það ekki hlutverk sitt að hlutast til um það hver stýri bankanum frá degi til dags. Það sé í verkahring bankaráðsins. Í þessu tilliti er Tryggvi öllum hnútum kunnugur, enda var hann stjórnarformaður Landsbankans á sínum tíma, m.a. þegar skarst í odda vegna brottreksturs Steinþórs Pálssonar úr stóli bankastjóra.

Sagði þá allt bankaráðið af sér, utan tveggja fulltrúa sem sátu sem fastast. Annar þeirra fulltrúa var Helga Björk Eiríksdóttir, fráfarandi formaður bankaráðsins, sem nú hefur lent saman við fyrrum samstjórnarmann sinn, Tryggva Pálsson.

Ekki gott að skipta allri áhöfninni út

Í samtölum sem mbl.is hefur átt við gamalreynda einstaklinga á bankamarkaði hefur komið fram að það styrki nokkuð stöðu Lilju Bjarkar að nú hafi verið ákveðið að skipta öllu bankaráðinu út. Ekki þyki traustvekjandi að yfir bankann verði settur hópur stjórnarmanna og æðsta stjórnanda sem allir séu nýir við borðið.

Hins vegar verður að taka tillit til þess að stjórnin nýja er langt í frá reynslulaus. Jón Þ. Sigurgeirsson á að baki áratuga langan feril í íslensku bankakerfi og á alþjóðavettvangi og margþætt reynsla kemur inn með hinum bankaráðsmönnunum sex.

Hvað sem þessum vangaveltum líður er ljóst að það stefnir í kraftmikinn aðalfund Landsbankans á morgun og ekki örgrannt um að nokkurar spennu gæti fyrir honum. Þykir líklegt að stríðandi fylkingar innan bankans og utan muni vilja koma sínum sjónarmiðum á framfæri við þetta tilefni. Gerist það, mun mbl.is flytja lesendum fréttir af vettvangi.

Dr. Ásgeir Brynjar Torfason hefur boðið sig fram í stjórn …
Dr. Ásgeir Brynjar Torfason hefur boðið sig fram í stjórn Landsbankans. Hann er ekki í hópi hinna tilnefndu frá Bankasýslunni. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka