Samdráttur í hagkerfinu á milli ára

Ekki hefur dregið áþreifanlega úr eftirspurn þrátt fyrir hátt vaxtarstig.
Ekki hefur dregið áþreifanlega úr eftirspurn þrátt fyrir hátt vaxtarstig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagkerfið dróst saman um 4% á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. 

Leita þarf aftur til ársins 2021 til að finna dæmi um samdrátt í landsframleiðslu á milli ára. Aftur á móti jukust einkaneysla og fjárfesting sem gefur til kynna eftirspurnarþrýsting, segir í hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. 

Minni birgðasöfnun meginorsök

Birgðabreytingar í sjávarútvegi skýra að miklu leyti samdráttinn. Á fyrsta ársfjórðungi í fyrra jukust birgðir vegna mikillar loðnuvertíðar. Loðnubresturinn í ár útskýrir þannig um 3,5% af 4% samdrætti.  

Aftur á móti hefur ekki dregið áþreifanlega úr eftirspurn þrátt fyrir hátt vaxtastig. Einkaneysla stóða að mestu í stað á milli ára og jókst um 0,2% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Sé allt árið í fyrra tekið saman jókst hún um 0,5% að meðaltali, en dróst saman um 2,3% á fjórða fjórðungi síðasta árs. 

Íbúðafjárfesting eykst 

Íbúðafjárfesting jókst um 15,7% á milli ára og leita þarf aftur til þriðja ársfjórðungs ársins 2019 til þess að finna sambærilega aukningu. 

Aukin íbúðafjárfesting virðist vera á skjön við það sem hefði mátt ætla út frá talningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem lýsir áhyggjum af því að uppbygging íbúða verði langt undir þörf, segir enn fremur í hagsjá Landsbankans.

Þá var framlag utanríkisviðskipta neikvætt um 2% sem skýrist bæði af minni útflutningi og meiri innflutningi. Er minni útflutningur rakinn til útflutnings sjávarafurða og þar vegur loðnubresturinn þungt. 

Útlit fyrir samdrátt í ferðaþjónustu 

Á fyrsta fjórðungi ársins dróst þjónustuútflutningur saman um 2,9% á föstu verðlagi. Farþegaflutningar aukast þó á milli ára sem gæti skýrst af aukningu í tengifarþegafjölda.

Liðurinn er varðar ferðalög minnkar á milli ára sem er mögulega rakið til galla í gögnum erlendra korta hér á landi.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu nýta í auknum mæli erlenda færsluhirðingu og sú kortavelta kemur ekki fram í gögnunum sem Hagstofan styðst við. 

Þjónustuinnflutningur jókst til muna á milli ára eða um 6,6%. Aukningin er rakin til mikillar aukningar í innfluttri fjármálaþjónustu, þá til dæmis færsluhirðingar kortafyrirtækja. 

Til innfluttrar þjónustu teljast meðal annars ferðalög Íslendinga til útlanda sem jukust lítillega á fjórðungnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK