Þurfa að sjá skýr merki kólnunar í sumar

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson, settur varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, á …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson, settur varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, á fundinum í morgun. mbl.is/Eyþór

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri vonar að verðbólgan gangi niður í sumar áður en næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar bankans verður tekin í ágúst.

Ásgeir, sem ræddi við blaðamann að loknum blaðamannafundi sem var haldinn vegna tilkynningar fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í morgun, segir að síðasta verðbólgumæling Hagstofu Íslands hafi verið vonbrigði, spurður hvernig hann metur sumarið hvað varðar verðbólguna.

„Olli mér vonbrigðum“

„Síðasta mæling var að einhverju leyti vonbrigði. Þetta var í sjálfu sér í samræmi við spár Seðlabankans en þetta olli mér vonbrigðum hvað þetta var breið hækkun, hve margir flokkar voru að hækka,” segir Ásgeir og nefnir að ótti bankans um mögulega hækkun verðbólgu vegna fyrstu áhrifa kjarasamninga virðist hafa raungerst.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eyþór

„En við erum að vona að verðbólgan gangi niður í sumar og að við sjáum tólf mánaða taktinn lækka. Auðvitað vonum við það, að lækkun verðbólgu geti búið í haginn fyrir það að við getum hafið vaxtalækkunarferli.”

Ef sumarið fer vel hversu mikið svigrúm heldurðu að þú myndirðu hafa til vaxtalækkunar? Myndirðu vera mjög varkár?

„Við verðum að sjá hvað setur en það sem við þurfum núna að sjá eru skýr merki um kólnun í kerfinu, skýr merki um að verðbólga sé að ganga niður og við getum þá brugðist við,” svarar Ásgeir.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson, settur varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, á …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson, settur varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, á blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Eyþór

Hann bendir á að helsta vandamál bankans stafi af háum verðbólguvæntingum. Verðbólgan hafi verið há í of langan tíma og að takturinn í verðhækkunum eigi erfitt með að ganga niður.

„Vandamálið nú er verðbólga. Við verðum að beita vöxtum af ákveðni til þess að ná henni niður. Okkur er enginn annars kostur. Að sama skapi, ef við náum henni niður þá verðum við líka að beita okkur af ákveðni til að tryggja stöðugleika í raunhagkerfinu,” segir seðlabankastjórinn.

Fáar stofnanir með skýrari markmið

Hann segir fáar stofnanir hafa jafnskýr markmið og Seðlabanki Íslands varðandi það að hafa skýr verðbólgumarkmið og að bankinn ætli vitaskuld að reyna að ná þeim. Minnist hann jafnframt á að kjarasamningar séu skilyrtir við lækkun verðbólgu.

„Við verðum að tryggja það að verðbólga gangi niður til þess að kjarasamningar standi, það er það sem stendur upp á okkur að bregðast við.”

Verðbólgan í dag er 6,2% sem Ásgeir segir „alltof mikið”.

Hvernig gæti hún gengið niður?

„Með því að verðlag hætti að hækka,” svarar hann einfaldlega en heldur áfram og nefnir að Seðlabankinn hafi aðallega áhyggjur af almennum hækkunum sem gangi yfir alla línuna. Þarna gætu fyrstu áhrif frá kjarasamningunum spilað stórt hlutverk með tilheyrandi launahækkunum eftir undirskrift. „Þó að þetta séu hóflegir samningar þá er þetta samt aukning á kostnaði svona fyrsta kastið,” segir Ásgeir.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á blaðamannafundinum í morgun.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„En það væri auðvitað heppilegast ef saman færu hægari efnahagsumsvif og lækkun verðbólgu. Þá getum við brugðist við mögulegum samdrætti með því að lækka vexti. En þrátt fyrir að það gerist ekki þá verðum við að samt að einbeita okkur að því að ná niður verðbólgu.”

Allt bendir til hægari efnahagsumsvifa

Í tilkynningu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í morgun kom fram að teikn væru á lofti um að tekið sé að hægja á efnahagslífinu samhliða hækkun raunvaxta. Ásgeir segir allt benda til hægari efnahagsumsvifa á næstunni. Mikill vöxtur í ferðaþjónustunni virðist vera að ganga niður og útlánin í fjármálakerfinu að minnka.

„Það eru helst byggingafyrirtæki og fasteignafélög sem eru að draga peninga út úr fjármálakerfinu, taka lán, þannig að það er ljóst að það er að hægja á fjárfestingu og hagvexti,” segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK