Verðbólga mælist innan markmiðs Bretlands

Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands.
Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands. AFP/Henry Nicholls

Verðbólga í Bretlandi mælist í fyrsta skiptið í þrjú ár innan verðbólugmarkmiðs breska seðlabankans.

Hjaðnaði verðbólgan úr 2,3% í 2% í maí en síðast mældist verðbólga innan 2% markmiðsins í júlí 2021.

Vaxtaákvörðun væntanleg á morgun

Verðbólguhjöðnunin var knúin áfram af lítilsháttar verðlækkun á matvælum og gosdrykkjum, hægari verðhækkunum á afþreyingu og menningu, húsgögnum og heimilisvörum. Bensínverð hækkar og matvælaverð er 25% hærra en í ársbyrjun 2022.

Seðlabanki Bretlands kynnir á morgun vaxtaákvörðun sína og er búist við því að hann haldi stýruvöxtunum í 5,25% sjöunda fundinn í röð. Þetta er hæsta vaxtastigið sem hefur verið í 16 ár en markaðir spá ekki vaxtalækkun fyrr en í ágúst.

Verðbólgan í Bretlandi hefur stöðugt lækkað frá því í október árið 2022.

Þingkosningar eru væntanlegar 4. júlí og er efnahagslífið þrætuepli meðal frambjóðenda.

Flokkarnir deila um verðbólguhjöðnun

Jeremy Hunt fjármálaráðherra sagði verðbólguna í Bretlandi mælast lægri en nánast öll helstu hagkerfi heims.

„Það hefði ekki gerst undir stjórn Verkamannaflokksins sem neitaði að fordæma launaverkföll hins opinbera, sem hefði þýtt verðbólguhækkanir og að verðbólga varði lengur,“ sagði Hunt.

Rachel Reeves, helsti talsmaður Verkamannaflokksins í efnahagsmálum, sagði við BBC að ólíkt íhaldsráðherrum ætli hún ekki að segja fólki að allt sé með felldu.

„Ég veit að dýrtíðarkreppan er enn bráð og þó að verðbólga fari lækkandi þýðir það ekki að verðið sé að lækka, það hækkar bara hægar,“ sagði Reeves.

BBC greinir frá þessu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK