Bláa lónið kaupir jörðina Hoffell 2

Frá vinstri: Sigfinnur Mar Þrúðmarsson, Grímur Sæmundsen, Þrúðmar S. Þrúðmarsson, …
Frá vinstri: Sigfinnur Mar Þrúðmarsson, Grímur Sæmundsen, Þrúðmar S. Þrúðmarsson, Sigursteinn Árni Brynjólfsson, Marín Ósk Björgvinsdóttir, Hólmfríður Bryndís Þrúðmarsdóttir og Aldís Aþena Björgvinsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Bláa Lónið hf. hefur fest kaup á jörðinni Hoffell 2 í Austur-Skaftafellssýslu.

„Kaupin eru liður í áformum félagsins um uppbyggingu fleiri áhugaverðra áfangastaða á Íslandi. Markmiðið er að móta einstakan stað fyrir ferðamenn, við rætur Hoffellsjökuls og skapa segul sem styrkir Suðausturland sem áfangastað ferðamanna,” segir í tilkynningu.

Seljendur jarðarinnar eru hjónin Þrúðmar Þrúðmarsson og Ingibjörg Steinsdóttir. Þau hafa rekið gistiþjónustu og heitar laugar að Hoffelli síðastliðinn áratug.

Í tilkynningunni segjast þau ánægð með frekari uppbyggingu á svæðinu og telja að bætt aðgengi að þessari náttúruperlu geti aukið aðdráttarafl og samkeppnishæfni Austurlands til framtíðar.

„Ferðamennskan hefur byggst upp hægt og rólega hjá okkur í gegnum árin. Margt ferðafólk fer í dagsferðir að Jökulsárlóni frá Reykjavík en fer síðan ekki lengra. Með því að fá vandaða uppbyggingu hér við Hoffell, þá vonandi fjölgar þeim sem gista yfir nótt og fara lengra austur, því hér er ótrúlega margt að sjá og upplifa,“ segir Ingibjörg Steinsdóttir, fráfarandi ferðaþjónustubóndi á Hoffelli 2.

Uppbyggingin verður skammt frá Hoffellsjökli, sem er skriðjökull úr Vatnajökli, með útsýni yfir jökullónið sem þar er. Gestastofa Hoffells verður ný upplýsingamiðstöð með jöklasýningu. Fram kemur í tilkynningunni að þau hjónin, Þrúðmar og Ingibjörg, hafi safnað einstökum heimildum um Hoffellsjökul, þróun og jarðfræði svæðisins.

Einstakt baðlón á heimsvísu

Samhliða þessu hefur Bláa lónið hf. gert samning við RARIK um aðgang að heitu vatni til uppbyggingar á nýjum baðstað við Hoffellsjökul. Baðlónið verður einstakt á heimsvísu að því leyti að allt vatn sem notað er verður endurnýtt. Heitt vatn fannst fyrst í Hoffelli um síðustu aldamót en sú uppgötvun gerði RARIK kleift að leggja hitaveitu í nærliggjandi byggðalög. Þeirri framkvæmd lauk árið 2021 og var hún mikið framfaraskref fyrir innviði á svæðinu þar sem hún sér íbúum fyrir hita og rafmagni og leysti fjarvarmaveitu af hólmi.

Jarðvarmaorkan frá hitaveitunni er forsenda fyrir uppbyggingu baðlónsins við Hoffell.

„Það er afskaplega jákvætt fyrir hitaveituna að fá jafn öflugan viðskiptavin og Bláa Lónið hf. Samningurinn er því mikilvægur bæði fyrir RARIK og samfélagið í Hornafirði en nýframkvæmdir eins og hitaveitan í Hoffelli eru þungar í rekstri fyrstu árin. Samningurinn eykur fastar tekjur veitunnar og léttir því uppbygginguna. Afhending á heitu vatni til baðlónsins mun hvorki hafa áhrif á afhendingargetu á heitu vatni til íbúa á Höfn, né á vatnsforða svæðisins. Þetta er tryggt með svokallaðri niðurdælingu sem þýðir að allt vatn sem fer til lónsins fer í gegnum varmaskipti og verður dælt niður í jarðhitakerfið aftur og þannig endurnýtt,“ segir Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK, í tilkynningunni.

„Bláa Lónið hf. vinnur nú að metnaðarfullri uppbyggingu í ferðaþjónustu víða um land þar sem sjálfbærni, virðing fyrir náttúrunni og ávinningur fyrir nærsamfélagið eru lykilþættir. Félagið vill stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða utan hefðbundinna viðkomustaða og eiga þannig þátt í því að styðja við greinina í heild sinni sem og jafna álag og aðgengi um allt land. Markmiðið er ætíð að hafa jákvæð áhrif með verkefnum sínum á nærsamfélagið á hverjum stað og eiga í góðu og uppbyggilegu samstarfi við hagaðila,” kemur fram í tilkynningunni.

Horfa til framtíðar

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins hf., bætir við: „Það er okkur afar mikilvægt að fara vel með þau svæði sem við njótum þess heiðurs að fá að byggja upp. Við horfum ávallt til framtíðar og leggjum mikið kapp á að horfa á heildaráhrif hverrar framkvæmdar, hvort sem þau áhrif eru umhverfisleg, samfélagsleg, rekstrarleg eða annað. Verkefnum er aðeins hleypt af stokkunum að vel athuguðu máli og þau gildi eiga við um uppbygginguna við Hoffellsjökul. Það er heiður að njóta trausts til að taka við svæðinu af Þrúðmari og Ingibjörgu og við leggjum mikla áherslu á að varðveita það góða starf sem hjónin hafa unnið,“ segir hann.

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar, segir jafnframt í tilkynningunni: „Við fögnum þessum metnaðarfullu áformum við Hoffell. Þétt og gott samtal milli Bláa lónsins hf. og sveitarfélagsins hefur verið til eftirbreytni og baðlónið sem þarna mun rísa nærri stórbrotnum skriðjökli verður einstakt á heimsvísu. Ferðaþjónusta er mikilvæg lykilstoð í atvinnulífi Hornafjarðar og við hlökkum til samstarfsins.“

Ráðgjafinn við uppbygginguna verður alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Arup.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK