Tíföldun í tekjum á fyrri helmingi árs

Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alvotech reiknar með mettekjum frá upphafi annars ársfjórðungs, en áætlaðar heildartekjur á öðrum ársfjórðungi eru á bilinu 196 til 201 milljónir bandaríkjadala.

Áætlaðar heildartekjur á fyrri helmingi ársins eru um 233 til 238 milljónir dala, sem er um það bil tíföldun frá sama tímabili í fyrra, þegar þær námu um 22,7 milljónum dollara.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Alvotech sendi til Kauphallarinnar í morgun, en um er að ræða óendurskoðaða áætlun um rekstrarniðurstöðu annars ársfjórðungs og á fyrri helmingi ársins 2024.

Samkvæmt félaginu er ekki hægt að áætla afkomu að svo stöddu, en í áðurbirtu uppgjöri vegna fyrsta ársfjórðungs kom fram að tap félagsins hafi numið 219 milljónum dala á fjórðungnum, samanborið við 275 milljónir árið áður. Tapið má að stórum hluta rekja til fjármagnsliða en litið til reksturs var leiðrétt EBITDA framlegð neikvæð um 38 milljónir dala á fjórðungnum, samanborið við neikvæðar 66 milljónir dala á sama tímabili ári fyrr.

Fram kemur að búist sé við met leiðréttri EBITDA-framlegð af rekstri Alvotech á öðrum ársfjórðungi. Þannig er leiðrétt EBITDA-framlegð áætluð 98 til 103 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi og á bilinu 60 – 65 milljónir dala á fyrri helmingi ársins, samanborið við neikvæða 178 milljóna dala leiðrétta EBITDA-framlegð á fyrri helmingi síðasta árs.

Þá kemur fram að áætlaðar tekjur af sölu á hliðstæðulyfjunum Humira og Stelara á alþjóðlegum mörkuðum, séu ætlaðar á bilinu 51 til 54 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi, en áætlaðar sölutekjur á fyrri helmingi ársins voru 63 til 66 milljónir dala, sem er um það bil 180% vöxtur miðað við sama tímabil í fyrra.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK