Saka skiptastjóra um uppspuna og óhróður

„Það er því sárt að þurfa að sitja undir þeim …
„Það er því sárt að þurfa að sitja undir þeim uppspuna og óhróðri að Grenjar séu að standa í vegi fyrir endurreisn félagsins,“ segja Grenjar. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrrverandi eigendur Skagans 3X hafna alfarið þeim „uppspuna og óhróðri“ að þeir standi í vegi fyrir sölu fyrirtækisins í heilu lagi. Þeim hafi hingað til verið haldið utan við samningaviðræður þó þeir eigi enn fasteignirnar þar sem Skaginn hélt úti starfsemi.

Skaginn 3X, sem var úrskurðaður gjaldþrota þann 4. júlí, verður sennilega ekki seldur í heilu lagi að óbreyttu. Um 130 manns misstu vinnuna vegna gjaldþrotsins, sem hefur verið áfall fyrir samfélagið á Akranesi. 

Helgi Jóhannesson skiptastjóri sagði í gær að ekki hefði tekist að selja fyrirtækið allt þar sem meg­in­for­senda þeirra til­boða sem borist hefðu í þrotabúið væri sú að fast­eign­irnar fylgdu með.

En ekki hefði náðst að tryggja þá forsendu þar sem fasteignirnar væru ekki í eigu þrotabúsins. Heldur eru fastegnirnar í eigu Grenja ehf., fyrrverandi eigenda Skagans sem seldu sinn hlut árið 2021. Helgi sagði að samningar við eigendur fasteigna næðust ekki. 

Þurft að fylgjast með framvindu mála í gegnum fréttir

Grenjar hafa nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau segjast ekki standa í vegi fyrir því að Skaginn yrði seldur í heilu lagi.

Grenjar taka fram að þær hafi hvorki fengið að taka þátt í viðræðum við skiptastjóra vegna fasteignanna né við þá fjárfestahópa sem sýna endurreisn Skagans áhuga.

„[H]efur Grenjum ehf. verið haldið utan við slíkar viðræður þrátt fyrir óskir um annað. Fyrst og fremst hafa Grenjar ehf. því getað fylgst með framvindu mála í fjölmiðlum,“ segir í yfirlýsingu frá Grenjum.

Hafa áhuga á að selja fasteignirnar

Grenjar segjast ávallt hafa verið til í að leigja eða selja væntanlegum kaupendum að rekstrinum fasteignir sínar sem starfsemi Skagans 3X var í. „[E]n engar slíkar beiðnir hafa komið fram. Engin breyting er á þessari afstöðu Grenja ehf.“

Skiptastjóri segir fasteignirnar vera veðsett­ar í Íslands­banka fyr­ir tæpa þrjá millj­arða króna.

Grenjar benda á að það sé þeim vitaskuld mikið tjón ef ekki er rekstur í húsnæði félagsins. Því fari hagsmunir Grenja og nærsamfélagsins á Akranesi saman. 

Grenjar segjast hafa leitað til Íslandsbanka og lagt til að möguleg ágreiningsmál varðandi veðbönd yrðu lögð til hliðar, svo að endurreisnarvinna félagsins mætti hefjast án tafar. Bankinn hafi hafnað þeirri beiðni en farið fram á að Grenjar myndu afsala til bankans óveðsettum lóðum á athafnasvæði Skagans 3X ehf., auk þeirra fasteigna sem væru veðsettar bankanum.

„Grenjar ehf. gátu að sjálfsögðu ekki samþykkt slíka afarkosti enda telja Grenjar ehf. meðal annars að bankinn hafi ekki gætt að trúnaðarskyldu sinni gagnvart Grenjum ehf. sem veðhafa og með því skaðað félagið,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins.

Sjá fram á verulegt fjárhagslegt tap

Grenjar bæta við að hvorki Íslandsbanki né skiptastjóri hafi tilkynnt sér að þeir hygðust taka einhverju af þeim tilboðum sem fram hafa komið í eignir félagsins.

„Það er því rangt af hálfu skiptastjóra að halda því fram að endurreisn á Akranesi hafi ekki náð fram að ganga vegna þess að ekki náðist samkomulag við eigendur fasteignanna.“

Fyrirtækið kveðst ekki ætla að taka þátt í þeim „leik“ að reyna að „benda á einhverja sökudólga í málinu“ en tekur fram að fjölskyldan á bak við Grenjar ehf. hafi ekki haft aðkomu að rekstri Skagans 3X síðan 2021, þegar hún seldi 60% hlut sinn í Skaganum.

„Eini snertiflötur Grenja ehf. við málið er að félagið sér fram á verulegt fjárhagslegt tap vegna málsins þar sem eignir félagsins eru veðsettar Íslandsbanka hf. vegna skulda Skagans 3X ehf.“

„Uppspuni og óhróður“

Grenjar beri þá von í brjósti að hægt verði að endurreisa rekstur Skagans 3X á Akranesi.

„Það er því sárt að þurfa að sitja undir þeim uppspuna og óhróðri að Grenjar séu að standa í vegi fyrir endurreisn félagsins,“ segja Grenjar.

„Öðrum ætti að vera jafn ljóst og okkur sem Akurnesingum að enginn byggir upp öflugt fyrirtæki í heimabyggð til þess eins að standa síðar í vegi fyrir endurreisn þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka