Gjaldþrotabeiðni á sögufrægt flugfélag

Ernir var stofnað fyrir 54 árum.
Ernir var stofnað fyrir 54 árum. mbl.is/Sigurður Bogi

Gjaldþrotabeiðni hefur verið sett fram á hið sögufræga flugfélag Ernir. Sigurður Bjarni Jónsson, stjórnarformaður Ernis og Mýflugs, sem fer með stóran hlut í Erni, segir eignir hafa verið seldar fyrir um 1,2 milljarða króna og að eftir standi um 300 milljón króna skuld.

Því sé nokkuð súrt í broti að þessi gjaldþrotabeiðni komi nú. Eignirnar sem seldar hafa verið er flugvél af gerðinni Dornier sem seld var til Þýskalands og flugskýli félagsins sem selt var til Volcano Heli ehf. sem gerir út þyrluflug frá Reykjavíkurflugvelli.

„Ég get staðfest að komið hefur fram gjaldþrotabeiðni á félagið og stjórnin er að skoða málið,“ segir Sigurður Bjarni.

 Meta það hvort lengra verði komist 

„Við höfum lækkað skuldirnar gríðarlega en að sama skapi undið ofan af flugrekstrinum. Við erum að meta það nú hvort lengra verði komist,“ segir Sigurður Bjarni.

Að sögn hans á félagið þrjár flugvélar enn af gerðinni Jet Stream 32. Tvær þeirra eru óflughæfar en sú þriðja er í útleigu og er það svo til eina tekjuöflun félagsins sem stendur að sögn Sigurðar.

Félagið á þrjár flugvélar af gerðinni Jet Stream 32.
Félagið á þrjár flugvélar af gerðinni Jet Stream 32. Ljósmynd/Ernir

Flugrekstarleyfi Ernis var afturkallað af Samgöngustofu fyrr í sumar.

„Við höfum lækkað skuldir Ernis um 1.200 milljónir. Í grófum dráttum standa eftir um 300 milljónir króna,“ segir Sigurður. 

Þykir mönnum þá ekki súrt að þessi beiðni komi fram á þessum tímapunkti? 

„Auðvitað þykir mönnum það súrt ef okkur vinnst ekki tími til að greiða betur úr þessu. Okkur þykir það mjög leitt,“ segir Sigurður Bjarni. 

Hann segist þó ekki áfellast nokkurn kröfuhafa. 

„Við höfum reynt að vera í sem bestu samtali við flesta okkar lánadrottna. Það hefur gengið misvel. Margir hafa tekið okkur mjög vel en aðrir hafa lítið af aðgerðum okkar viljað vita,“ segir Sigurður Bjarni. 

54 ára saga 

Ernir var stofnað árið 1970 af Herði Guðmundssyni sem seldi meirihlutaeign sína í upphafi árs 2023. Félagið hefur m.a. sinnt flugi til Húsavíkur og Vestmannaeyja en þjónustusamningur vegna þessara flugleggja rann út í mars. Auk þess hefur félagið sinnt leigu- og sjúkraflugi að hluta. Eftir stóð flugleggur til Hafnar í Hornafirði sem Mýflug tók yfir.

Sigurður segir að eftir að Ernir missti samning um sjúkraflug hafi góð ráð verið dýr en Mýflug á um 33% hlut í Erni.

„Við komum að Ernismálinu með það fyrir sjónum að reyna að rétta af fjárhaginn. En svo töpum við (Mýflug) sjúkraflugssamningi sem við höfum haft. Þá stóðum við upp með tvö félög. Annað var verkefnalaust, sem var Mýflug og hitt stóð illa fjárhagslega. Nú erum við komin langt með að stofna eitt félag sem er með verkefni,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK