Meiri fyrirsjáanleiki nauðsynlegur

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra vill meiri fyrirsjáanleika í kringum erlendu skuldabréfaútgáfu ríkisins. Kom þetta fram í viðtali við ViðskiptaMoggann sem birt var í gær.

Á næstu árum gæti fjármögnunarþörf ríkissjóðs aukist og ríkið því þurft að draga til sín aukið lánsfjármagn.

Óverðtryggð ríkisskuldabréf munu jafnframt falla á gjalddaga á næstu fjórum árum. Eitt óverðtryggt á hverju ári næstu fjögur árin og eitt verðtryggt árið 2026.

„Við þurfum að verða betri í að koma skilaboðum á markaðinn, hvað er fram undan og hvað er fyrirhugað. Í kringum atburðina í Grindavík þurftum við að auka skuldabréfaútgáfu ríkisins um 30 milljarða króna. Það hefði verið betra ef við hefðum haft fyrirsjáanleika varðandi það. Það að markaðurinn viti hvað sé fram undan skiptir máli upp á kjörin og trúverðugleika. Við erum að endurskoða upplýsingagjöfina í gegnum lánamál ríkisins og gera hana skilvirkari og árangursríkari,“ segir Sigurður Ingi.

Það að ríkið takið til sín meira lánsfjármagn, hafið þið áhyggjur af getu fyrirtækja til að fjármagna sig í slíku umhverfi?

„Á litlum markaði þarf ríkið að taka þátt á skuldabréfamarkaði til að halda honum gangandi. En það þarf að vera meiri fyrirsjáanleiki í útgáfu ríkisins. Við þurfum að eiga meira samtal við markaðinn bæði innan lands og utan,“ segir Sigurður Ingi.

Hann bætir við að áform um að selja Íslandsbanka muni hjálpa ríkisfjármálunum mikið og lækka skuldir ríkissjóðs.

Hefur ekki áhyggjur af fjárfestingu

Nú er fjárfesting ríkisins sífellt að dragast saman og útgjöldin að miklu leyti tilfærslur og launakostnaður, hefur þú ekki áhyggjur af þeirri samsetningu ríkisútgjalda og er fjárfesting ríkisins ekki of lítil?

„Horft til langs tíma er það áhyggjuefni að þó svo að við séum nú á góðum stað hvað varðar fjárfestingastigið, sem er í samræmi við langtímameðaltal, erum við enn á þeim stað að mikilvægar framkvæmdir í samgöngum, húsnæði, innviðum, menntun og heilbrigðismálum þurfa að eiga sér stað. Áskorunin er sú að þar sem þörf er á að byggja upp þessa þætti er ekki nægt fjármagn til að sinna öllum þeim verkefnum sem við viljum og þurfum að framkvæma. Með vaxandi umfang verkefna síðustu áratuga hefur orðið mikil þörf á að finna nýjar leiðir til að fjármagna framkvæmdir, eins og með samgöngusáttmálum eða með öðrum fjármögnunaraðferðum eins og samvinnuleiðum/PPP (Private Public Partnerships)," segir Sigurður Ingi og nefnir að gott dæmi um slíka nýtingu sé samgöngusáttmáli sem sýnir hvernig við getum unnið saman að markmiðum án þess að leggja fulla byrði á ríkissjóð.

Það er mikilvægt að við getum ekki aðeins treyst á fjármögnun ríkisins í gegnum samgönguáætlun, þar sem það gæti haft neikvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þess vegna hafa verið skoðaðar nýjar leiðir til að styrkja innviði samfélagsins án þess að skapa óæskileg áhrif á ríkisfjármál. Við höfum síðustu árin unnið að því að finna úrræði til að byggja upp samfélagið okkar. Það er mikilvægt að stjórnvöld séu tilbúin til að grípa til aðgerða þegar hagkerfið dregst saman og að draga sig til baka þegar allt er í góðum gangi. Vandi við þessa nálgun er að ríkið, líkt og flugmóðurskip, er ekki alltaf nægilega sveigjanlegt og getur verið seint til að bregðast við breyttum aðstæðum. Þetta hefur verið vandamál sem við höfum glímt við lengi og því er nauðsynlegt að við skoðum það nánar til að finna bestu lausnirnar fyrir framtíðina,“ segir Sigurður Ingi.

Spurður út í fjármögnun samgöngusáttmálans og þá gagnrýni sem fjármögnun hans hefur fengið og fjallað var um í ViðskiptaMogganum í síðustu viku segir Sigurður Ingi að sáttmálinn hafi verið risaverkefni sem krafðist langtímaendurskoðunar. Þróunin hefur leitt til þess að hugmyndir hafa þróast frá mislægum gatnamótum í stórar hugmyndir um jarðgöng og stokka. Þegar verkefnið hófst var Keldnaland metið á 15 milljarða króna, en nú hefur endurmat farið fram og verðmæti landsins farið yfir 50 milljarða. Þrátt fyrir að augljós kostnaðaraukning hafi átt sér stað er enn óvíst hvernig þetta mun spilast út í framtíðinni.

„Ég hef engar áhyggjur af þessu og tel að það sé fyrirséð hvernig muni spilast úr þessu,” segir hann og bætir við að nauðsynlegt hafi verið að uppfæra sáttmálann vegna aukins umfangs og mikilla kostnaðarhækkana, áætlanir hafa verið endurskoðaðar og gildistími lengdur til ársins 2040 til að tryggja raunhæfan tímaramma,“ segir hann.

Segir að ríkisstarfsmönnum hafi ekki fjölgað

Þú talar um mikilvægi þess að styrkja grunnkerfin en það er staðreynd að útgjöld hafa aukist til málaflokka sem ekki teljast til grunnþjónustunnar. Þið settuð á stofn mannréttindastofnun svo dæmi séu tekin og ríkisstarfsmönnum fjölgar sífellt. Eru það ásættanleg útgjöld í þessu efnahagsástandi? Ætti ekki að setja öll gæluverkefni á ís?

„Þú notar orðin gæluverkefni en mannréttindastofnun er hluti af því að við erum búin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna vegna fatlaðs fólks. Ég get því ekki talið Mannréttindastofnun sérstakt gæluverkefni. Ef við skoðum ríkisútgjöldin aftur í tímann þá hefur okkur fjölgað um 15% á þessum tíma og útgjöld ekki vaxið umfram það og jafnvel minna. Það er ósanngjarnt að taka covid-tímann með. Ef horfum á ríkisumsvifin hafa þau farið minnkandi fimm ár í röð eftir covid. Og þau eru komin á sama stað og 2019 fyrir covid og þrátt fyrir að landsmönnum hafi fjölgað um 3% á hverju ári. Nei höfum ekki verið að fjölga ríkisstarfsmönnum og fjölgunin er ekki þar,“ segir Sigurður og bætir við að hagkerfið hafi vaxið mjög hratt þar sem 9% hagvöxtur hafi orðið 2022 og 5% 2023. Síðan stefnir í 0,9% hagvöxt á þessu ári en strax 2,6% á því næsta.

„Spár OECD um framtíðarhagvöxt hér liggja á því bili sem er 1-2% hærra en í öllum löndunum í kringum okkur. Þannig að horfurnar á Íslandi að því gefnu að við náum mjúkri lendingu eru mjög góðar,“ segir Sigurður Ingi.

Tekur tíma að vinda ofan af útgjöldum faraldursins

Nú fáum við fréttir af því að tekjur ríkisins séu miklar og hagvöxtur verið mikill og maður hefði haldið að í því umhverfi væri auðvelt að reka ríkissjóð með afgangi en staðan er sú að ríkissjóður er rekinn með 41 milljarðs halla. Við munum ekki skila hallalausum fjárlögum fyrr en árið 2029. Finnst þér þessi staða ásættanleg? Ættuð þið ekki að vera með metnaðarfyllri markmið um að reka ríkissjóð með afgangi?

„Ef við gerum það þá náum við ekki mjúkri lendingu. Slíkar niðurskurðaraðgerðir myndu koma niður á atvinnustiginu og grunnkerfunum. Atvinnustigið er mjög hátt og ef ríkið dregur saman seglin þá munu fyrirtæki og stofnanir segja upp fólki. Það mun verða til þess að fólkið stendur ekki undir skuldunum sínum,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að það sé lykilatriði að viðhalda háu atvinnustigi.

Atvinnuleysi um þessar mundir sé mjög lítið þrátt fyrir hagsveifluna. Hann bendir að að í kjölfar faraldursins hafi ríkisstjórnin beitt ríkissjóði og tekið á sig 300 milljarða króna halla sem mun taka sinn tíma að vinda ofan af. Á árinu 2022 hafi verið 9% hagvöxtur og ríkissjóður skilað 100 milljörðum betri afkomu.

„Hvað gerðum við með þá fjármuni? Jú við settum þá í að greiða niður skuldir sem varð til þess að við erum aðeins rétt fyrir ofan 30% skuldareglu ríkisins,“ segir Sigurður Ingi.

Árið 2016 tóku gildi reglur sem fólu í sér að skuldir ríkissjóðs skyldu veru undir 30% af vergri landsframleiðslu. Í kjölfarið lækkuðu skuldir og fóru lægst í 21,9% af vergri landsframleiðslu 2019.

Síðan var vikið tímabundið frá skuldareglunni í heimsfaraldrinum og þá jukust skuldir ríkissjóðs hratt. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs verði 31,4% af vergri landsframleiðslu á næsta ári, þ.e. rétt yfir því sem reglan gerir ráð fyrir. Að óbreyttu tekur reglan ekki gildi á ný fyrr en 2026.

Sigurður Ingi segir að sér finnist afar mikilvægt að fylgja skuldareglunni upp á trúverðugleika að gera.

„Fjármálaáætlun leggur upp með að ná heildarjöfnuði í fjárlögum núna. Við höfum sett upp tvær fráviksmyndir, ein verri og önnur betri. Sú verri gerir ráð fyrir skörpum samdrætti og jafnvel niðursveiflu en hin betri gerir ráð fyrir mjúkri lendingu og 3,5% hagvexti. Íslenskt hagkerfi er öflugt þannig að það er ekki ólíklegt að seinni sviðsmyndin verði veruleikinn,“ segir Sigurður Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK