Lánþegaskilyrði sannað tilverurétt sinn

Haukur Camillus Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans.
Haukur Camillus Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans. Árni Sæberg

Haukur Camillus Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, segir lánþegaskilyrði Seðlabankans hafa sannað tilverurétt sinn í ljósi þess að skuldsetning sé ekki óhófleg hjá heimilum og fyrirtækjum.

„Lánþegaskilyrðin koma þó misjafnlega niður á fólki og við sjáum að íbúðaverð er hátt á flesta mælikvarða. Raunverð íbúðarhúsnæðis er aðeins yfir leitni og hefur það komið manni á óvart hversu miklar verðhækkanir voru í júlí og ágúst,“ segir Haukur og bætir við að það hafi verið mikill þróttur í markaðnum.

Fjármálaleg skilyrði batnað

Haukur bendir á að þróun fjármálaskilyrðavísisins gefi til kynna að fjármálaleg skilyrði hafi batnað.

„Fjármálaleg skilyrði hafa batnað nokkuð á öllum mörkuðum sem vísirinn tekur til nema á lánaog gjaldeyrismarkaði,“ segir Haukur og bætir við að sá hluti vísisins sem lýtur að húsnæðismarkaði hafi hækkað nokkuð það sem af er ári og mældist jákvæður í júlí síðastliðnum.

Fjármálaleg skilyrði á lána- og gjaldeyrismarkaði hafa aðeins þrengst það sem af er ári. Í Fjármálastöðugleika kemur fram að fjármálalegskilyrði á gjaldeyrismarkaði hafi sveiflast nokkuð á árinu, annars vegar vegna breytinga í langtímavaxtamun milli Íslands og Þýskalands og hins vegar vegna veikingar á gengi krónunnar á síðustu mánuðum.

Fjármálaleg skilyrði á lánamarkaði hafa verið lítillega þröng allt árið enda hefur skuldavöxtur einkageirans, bæði heimila og fyrirtækja, verið hóflegur undanfarið.

Haukur segir að horfa verði á þennan mælikvarða með gagnrýnum augum.

„Fjármálaleg skilyrði á skuldabréfa- og peningamarkaði hafa verið rúm síðustu misseri samkvæmt vísinum. Ef við skoðum muninn á ávöxtunarkröfu tíu ára og tveggja ára ríkisbréfa þá sjáum við að vaxtaferillinn er niðurhallandi og það hækkar vísinn þótt vextir sé ekki lágir. Því verður að horfa á þennan mælikvarða með gagnrýnum augum,“ segir Haukur

Ekki víst að vísirinn endurspegli þróun að fullu

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að mælikvarðinn sem Seðlabankinn vitni til, hinn svokallaði fjármálaskilyrðavísir, hafi vissulega hækkað nokkuð undanfarið.

Það sé hins vegar hægt að setja spurningarmerki við hvort vísirinn endurspegli að fullu nýlega þróun. Til að mynda hafi húsnæðisþáttur vísisins hækkað að stórum hluta vegna hækkunar íbúðaverðs.

„Þótt það skapi aukið veðrými verður að sama skapi meiri áskorun að fjármagna ný íbúðakaup á sama tíma og vaxtabyrði allra lánaforma hefur aukist síðustu misserin. Þá hefur útlánavöxtur, sem hefur áhrif til hækkunar á þessum mælikvarða, verið nokkuð misjafn milli helstu atvinnugreina. Loks má setja spurningu við að niðurhallandi vaxtaferill á markaði eigi að hækka mat á fjármálaskilyrðum þótt þannig sé því háttað í útreikningi Seðlabankans,“ segir Jón Bjarki.

Greinin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í ViðskiptaMogganum s.l. miðvikudag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK