Samdráttur á milli ára hjá Play

Flugfélagið Play flutti 144.746 farþega í september.
Flugfélagið Play flutti 144.746 farþega í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugfélagið Play flutti 144.746 farþega í september 2024, sem er 14,7% samdráttur á farþegafjölda frá fyrra ári þegar Play flutti 163.784 farþega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Kemur þar fram að sætanýting hafi hins vegar farið úr 85,0% yfir í 87,3% á milli ára.

Þá voru 28,3% farþega sem flugu með Play í september á leið frá íslandi, 35,8% voru á leið til Íslands og 35,9% voru tengifarþegar.

Kemur einnig fram að hlutdeild Play á heimamarkaði hafi aukist um 9% á milli ára, en farþegum sem flugu frá Íslandi fjölgaði úr nærri 38 þúsund í september í fyrra í nærri 41 þúsund í ár.

Segir í tilkynningunni að sætanýting á Norður-Ameríkuleiðum hafi náð 89,7% og hafi aldrei verið hærri í einum mánuði. Þar að auki jókst sætanýting á leiðum Play til borgaráfangastaða í Evrópu um 6%.

Þá var stundvísi flugfélagsins í september 90,5% sem er hækkun frá því í fyrra þegar hún mældist 85,1%.

Nýjr áfangastaðir og nýtt samstarf

Í tilkynningunni kemur fram að Play hafi hafið miðasölu á áætlunarflugi til Valencia á Spáni og Pula í Króatíu í september. Þar að auki hafi flugfélagið fjölgað ferðum til Split í Króatíu á næsta ári sem gerir það að verkum að áætluð verða tvö flug í viku til borgarinnar þegar mest lætur.

Einnig hefur Play tilkynnt um nýtt samstarf við fyrirtækið Sabre og mun samstarfið gera ferðaskrifstofum kleift að ná beinni sölutengingu við leiðakerfi Play í gegnum Sabre.

Mun það hafa í för með sér að söluleiðir Play aukast til muna á markaðssvæðum flugfélagsins í Norður-Ameríku og Evrópu.

Hafi þurft að takast á við áskoranir

„Við sáum talsverðar framfarir í rekstri félagsins í septembermánuði þrátt fyrir að farþegum hafi fækkað á milli ára. Sætanýtingin jókst til að mynda um 2,3 prósentustig, og hlutdeild okkar á heimamarkaði heldur áfram að aukast, sem er merki um hversu ánægðir Íslendingar eru með okkar þjónustu,“ er haft eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play.

Enn fremur segir hann að flugfélagið hafi þurft að takast á við ýmiskonar áskoranir í sumar sem sneru að tengiflugi yfir Atlantshafið. Þá hafi flugfélagið minnst á það áður að framboð á beinum flugferðum yfir Atlantshafið hafi aukist talsvert undanfarið ár. Við því hafi verið brugðist með því að draga úr framboði á Norður-Ameríkuleiðum.

Segir forstjórinn að horfurnar hafi einnig batnað umtalsvert inn í veturinn þar sem dregið hefur talsvert úr framboði á beinu flugi yfir hafið og þegar litið er til aðgerða flugfélagsins og að dregið hafi úr framboði sé gert ráð fyrir að það muni skila sér í betri einingatekjum á komandi mánuðum.

Stundvísi flugfélagsins í hæstu hæðum

„Við höfum bætt nýjum sólarlandaáfangastöðum við leiðakerfið okkar sem ættu að skila góðri niðurstöðu fyrir okkur á næsta ári. Við höfðum greint frá því að við myndum fara þá leið að draga úr framboði á ferðum til Norður-Ameríku en á móti myndum við auka ferðir til sólarlandaáfangastaða sem hafa skilað betri niðurstöðu fyrir okkur,“ er haft eftir forstjóranum.

Tekur hann þá einnig fram að flugrekstrarsvið félagsins haldi áfram þeim hætti að skila stundvísi þess í hæstu hæðum.

„Það gerir það að verkum að enn einn mánuðinn er Play stundvísasta flugfélagið sem flýgur frá Keflavíkurflugvelli. Við erum afar stolt af þeirri niðurstöðu og munum að sjálfsögðu kappkosta við að halda þeim titli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK