Heimar vilja draga úr skuldsetningu

Halldór Benjamín Þorbergsson tók við starfi forstjóra Heima í maí …
Halldór Benjamín Þorbergsson tók við starfi forstjóra Heima í maí á síðasta ári en var áður framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Karítas

Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri fasteignafélagsins Heima, segir að fjöldamörg tækifæri blasi við fasteignafélaginu um þessar mundir. Hann segir í viðtali við ViðskiptaMoggann að helstu tækifærin snúi að uppbyggingu á kjarnasvæðum.

Halldór Benjamín tók við starfi forstjóra Heima í maí á síðasta ári. Hann segir það hafa verið áskorun að skipta um umhverfi, en hann starfaði sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í tæp sjö ár.

„Þetta var spennandi tækifæri sem ég greip. Það er öllum hollt að skipta reglulega um starfsvettvang, en veldur hver á heldur og ég hef sett mitt mark á Heima,“ segir Halldór.

Hann segist hafa þá sýn að horfa á samfélagið í víðu ljósi og telja að framþróun samfélagsins byggi á því að þróa heilu og hálfu borgarhlutana. Þar spili fasteignafélög stórt hlutverk. Hann segir verkefni Heima vera að kortleggja möguleika framtíðarinnar og skapa eftirsóknarverð svæði til búsetu og atvinnuuppbyggingar.

Í þeim efnum þurfi hvort tveggja að horfa á möguleikana í bráð og lengd og gleyma ekki þeirri staðreynd að velheppnuð samfélög byggjast upp á mörgum mannsöldrum.

„Sagan dæmir stór mistök í þeim efnum ekki vel. Ábyrgð okkar er því mikil og undir henni ætlum við að standa,“ segir Halldór Benjamín.

Þörf á nýrri hugsun

Halldór Benjamín segir að þróun samfélagsins til framtíðar kalli á nýja hugsun og nálgun.

„Heimar er að mínu mati kraftmikið heiti sem felur í sér ótal möguleika og markar okkur sérstöðu. Nýtt og einkennandi útlit samfara nafnabreytingunni styður svo við skýra stefnu og sýn félagsins,“ segir Halldór Benjamín.

Helstu kjarnar fasteignafélagsins Heima eru Smáralind, Höfðatorg, Egilshöll og Hafnartorg. Fram undan hjá Heimum er uppbygging á Borgarhöfðanum, en það er verkefni sem Heimar koma að í gegnum Klasa-eignarhaldsfélag sem Heimar eiga þriðjungshlut í.

Gróska hefur verið í rekstri og uppbyggingu helstu kjarna Heima – sama hvort litið er til fullrar útleigu Höfðatorgs, áframhaldandi þróunar Hafnartorgs, uppbyggingar heilsugæslustöðvar á Akureyri eða þeirra breytinga sem eru fram undan í Smáralind, þar sem nýtt 3.000 fermetra hágæða skrifstofurými verður tekið í gagnið á árinu 2024. Þá verður nýtt veitingasvæði opnað í austurenda Smáralindar árið 2025.

Í fjárfestakynningu Heima fyrir fyrri helming þessa árs kemur fram að útleiga aukist talsvert milli ára hjá félaginu. Leigutekjur félagsins hækkuðu um 1,8% umfram verðlag, en þær hækkuðu um 8,24% á fyrri helmingi ársins. Samanlagt hafa verið undirritaðir samningar um 25.000 fermetra á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 17.000 fermetra árið 2023.

„Til framtíðar horfum við til þess að efla kjarnastarfsemi okkar enn frekar, bæði í uppbyggingu húsnæðis og innviða, en horfa jafnframt til þess að útvíkka þróun nýrra og spennandi svæða sem eru líkleg til að leika lykilhlutverk í byggðaþróun á komandi árum og áratugum,“ segir Halldór Benjamín.

Heimar með 60% skuldsetningarhlutfall

Skuldsetningarhlutfall íslenskra fasteignafélaga er hærra en gengur og gerist á Norðurlöndunum og fylgja Heimar ríflega 60% skuldsetningarhlutfalli. Halldór lýsir því að markmið félagsins sé að draga úr skuldsetningu.

„Við erum á áþekkum stað og hin íslensku fasteignafélögin hvað skuldsetningu varðar. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir grænu skuldabréfaflokkunum okkar. Heimar leggja mikla áherslu á sjálfbærni, voru fyrsta skráða félagið á Íslandi sem gaf út græn skuldabréf og nú eru um 43% af skuldum félagsins grænar skuldir, auk þess sem um 36% af eignasafninu hafa hlotið alþjóðlega umhverfisvottun. Þar njótum við algerrar sérstöðu á markaðnum,“ segir Halldór og leggur áherslu á mikilvægi þess í ljósi þeirra skuldbindinga er varða grænar áherslur sem lífeyrissjóðir hafa gengist undir.

Spurður um rekstrarleg markmið segir Halldór að langtímasýn Heima snúi að því að hafa fáa stóra viðskiptavini fremur en marga smærri. Í fjárfestakynningu Heima kemur fram að eitt af markmiðum félagsins sé að auka hlutdeild kjarnasvæða, en félagið fær 70% af tekjum sínum frá þeirri starfsemi. Félagið stefnir að því að auka þetta hlutfall enn frekar.

„Við sjáum fjöldamörg tækifæri á markaðnum, einkum er varðar vöxt,“ segir Halldór Benjamín.

Lítið púsl í stórri mynd

Síðastliðinn föstudag var tilkynnt að Heimar hefðu samþykkt kauptilboð Módelhúsa ehf. í fimm fasteignir, fyrir tæpa 3,3 milljarða króna. Módelhús eru í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur.

Í tilkynningu Heima til Kauphallar kom fram að fasteignirnar fimm væru staðsettar utan skilgreindra kjarnasvæða Heima og sala þeirra samræmdist stefnuáherslum félagsins.

Áætlaður söluhagnaður er 351 milljón króna en núverandi leigutekjur eignanna nema um 250 milljónum króna á ársgrundvelli. Söluandvirðið verður nýtt til fjárfestinga í samræmi við fjárfestingarstefnu félagsins. Halldór Benjamín segir að viðskiptin séu órofa hluti af stefnumörkun Heima.

„Félagið er að selja eignir utan kjarnasvæða og jafnvel þótt þetta séu ekki umfangsmikil viðskipti í stóra samhenginu staðfesta þau að markaðsvirði eigna okkar er talsvert umfram bókfært virði,“ segir Halldór.

Viðtalið birtist fyrst í ViðskiptaMogganum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK