Innherji er skoðanadálkur ViðskiptaMoggans
Tilkynningum um uppsagnir fólks hjá fyrirtækjum landsins hefur farið fjölgandi. Því miður kemur þetta ekki á óvart og er hluti af ferlinu að lækka verðbólgu. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur sjálfur bent á að við lækkum ekki verðbólgu nema auka vanskil og uppsagnir. Þetta er sársaukafullt en allir bera ábyrgð, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra í viðtali við ViðskiptaMoggann fyrir skemmstu.
Í gögnum sem Hagstofan birti nýlega kemur fram að starfandi einstaklingum hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum hafi fjölgað um 4% síðustu tólf mánuði. Þetta er ekki í samræmi við þróun á almennum markaði. Frekari útlistun er í ViðskiptaMogganum í dag. Af hverju er ekki tekið almennilega á í ríkisrekstri? Í fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram í síðasta mánuði er ljóst að ríkið ætlar ekki að fara í neinar aðhaldsaðgerðir; það treystir á hlutföll en ekki niðurskurð.
Samtök iðnaðarins bentu jafnframt á það í vikunni, í kjölfar birtingar talna Hagstofunnar, að það væri augljóst að hið opinbera hefði viðhaldið þenslu á vinnumarkaði. Þar með verðbólgu og háum stýrivöxtum. Tölur um fjölgun opinberra starfsmanna og launaþróun þeirra sýna þetta því miður svart á hvítu.
Verkefninu er ekki lokið, segja stjórnmálamennirnir. Hvaða verkefni er það eiginlega? Mögulega kristallast hluti af þessum vanda stjórnmálamannanna í orðum Svandísar Svavarsdóttur formanns VG þegar hún á nýafstöðnum fundi flokksins sagðist sammála því sem flestir sjá, að stjórnarsamstarfið væri í raun búið. Tók hún þar með undir með svokallaðri grasrót flokksins. Rýr er reyndar sú þekja.
Formaðurinn gaf sér og sínum hins vegar góðan tíma, engar kosningar fyrr en í vor. Það liggur ekkert á. Af hverju ekki kjósa núna? Gæti það tengst því að þau átta sig einfaldlega á því að ríkisstyrkirnir sem miða við atkvæðavægi síðustu kosninga og störfin sjálf fá þau eflaust ekki aftur eftir kosningar? Ráðamenn skilja ekkert í þessari stöðu því þau hafa öll verið svo dugleg að funda, mynda nefndir og skila skýrslum. Ekkert af því leysir hins vegar vandann og enginn virðist þurfa að bera neina raunverulega ábyrgð. Hvorki gagnvart kjósendum eða lögum.
Ef þessir sömu ráðamenn væru starfsmenn einkafyrirtækis væri fyrir löngu búið að segja þeim að verkefninu væri lokið og að frekari skýrsluskrif væru óþörf. Það er engin þörf að bíða til vorsins. Tíminn er núna.