Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu segir að lífeyrissjóðurinn hafi áður farið á móti straumnum í fjárfestingum. Þetta segir hann í viðtali við Morgunblaðið í dag þar sem hann ræðir um fyrirætlanir flugfélagsins Play um breytt rekstrarlíkan.
„Við fjárfestum til dæmis í Heimavöllum þegar tölur varðandi það félag litu ekki vel út og fáir höfðu áhuga en síðan færðist reksturinn til betri vegar og það borgaði sig,“ segir Ólafur. „Það reynir auðvitað stundum á þolrifin að standa með eigin sannfæringu enda er léttara að falla á forsendum með fjöldanum.“
Ólafur segir að í því sambandi verði að horfa til þess að um sé að ræða aðeins lítinn hluta af eignasafni Birtu en fjárfestingin í Play nemur aðeins 0,2 prósentum af heildareignasafni Birtu.
„Með því erum við ekki að segja að fjárhæðin skipti ekki máli en að framlag fjárfestingarinnar til heildaráhættu eignasafnsins sé lítið.“
Ólafur segist vera ánægður með upplýsingagjöfina hjá Play og tölur fyrirtækisins séu faglega settar fram. „Ég hef ekki rekist á neitt í rekstrartölum félagsins sem ekki hefur verið upplýst um og við erum ánægðir með upplýsingagjöfina,“ segir Ólafur.
Viðtalið er hluti af lengra viðtali og umfjöllun sem birtist í Morgunblaðinu í morgun og verður birt á viðskiptavef mbl.is í hlutum í dag.