Sjónarhóll: Nýársbörnin

Arnar Vilhjálmur Arnarsson lögmaður og eigandi Bótamál.is.
Arnar Vilhjálmur Arnarsson lögmaður og eigandi Bótamál.is. Ljósmynd/Aðsend

Það má reiða sig á það að þann 1. janúar ár hvert er rituð frétt um að fyrsta barn ársins hér á Íslandi sé komið í heiminn.

Það er mikið ánægjuefni en að þessu sinni sérstaklega fyrir viðkomandi foreldra, því ef barnið fæðist 31. desember 2024 mun það njóta skerts réttar til fjárhagslegra greiðslna úr fæðingarorlofssjóði svo getur munað allt að 1.200.000 krónum.

Hinn 22. júní síðastliðinn tóku nefnilega gildi breytingar á lögum nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof. Breytingarnar fólust í endurskoðun á hámarksfjárhæð mánaðarlegra greiðslna til foreldra úr fæðingarorlofssjóði sem voru þannig hækkaðar úr 600.000 krónum á mánuði í 900.000 krónur á mánuði. Þó þannig að réttur foreldris til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði nemi að hámarki 700.000 krónum á mánuði til foreldra barns sem er fætt, frumættleitt eða tekið í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2025 og að hámarki 800.000 krónum á mánuði á tímabilinu 1. janúar 2025 til 31. desember 2025.

Tilgangurinn með hækkuninni er að mæta þeirri þróun launa og verðlagsbreytinga sem átt hefur sér stað frá því að 600.000 króna viðmiðunarfjárhæðin var ákveðin. Hækkanirnar eru vitaskuld kærkomnar fyrir alla þá sem til þeirra geta átt tilkall. Hins vegar má vel setja spurningarmerki við þá ákvörðun löggjafans að miða hækkanir við fæðingardag barns og þykja sterk rök hneigjast til þess að frekar sé miðað við þann tíma sem fæðingarorlof er tekið.

Sé horft til sjónarmiða meirihluta velferðarnefndar við 2. umræður um lagabreytingarfrumvarpið sagði m.a. að hækkunin úr 600.000 krónum í 700.000 krónur væri mikilvæg til þess að draga úr áhrifum þeirra búsifja sem barnafjölskyldur hafa orðið fyrir vegna verðbólgu og hás vaxtastigs. Voru þessi rök m.a. grundvöllur þess að ákveðið var að hækkun greiðslna úr 600.000 krónum í 700.000 krónur skyldi gilda afturvirkt visst tímabil.

Svo virðist þó sem sömu rök hafi ekki verið höfð að leiðarljósi við ákvörðun um skertar hækkanir fram á veginn horft. Með sambærileg sjónarmið að leiðarljósi þættu nefnilega rök standa til þess að láta hliðstæðar fjölskyldur sem taka fæðingarorlof sitt á sama tíma en eignast barn sitthvorumegin við áramótin 2024/2025 njóta jafns réttar til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði. Enda búa fjölskyldurnar við sama vaxtaumhverfi og sömu verðbólgu óháð því hvenær barnið þeirra fæðist eða barn er tekið í varanlegt fóstur eða frumættleitt.

Ef við tökum dæmi um tvær fjölskyldur sem eiga rétt til hámarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði þar sem önnur eignast barn 31. desember 2024 en hin 1. janúar 2025 þá munu foreldrar barnsins sem fæddist deginum fyrr þurfa að sæta skertum rétti til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði og nemur tekjumissirinn 1.200.000 króna samanborið við foreldrana sem eignuðust barn eftir áramótin. Jafnvel þótt þær hafi tekið fæðingarorlofið nákvæmlega sömu daga, búið við sama vaxtaumhverfi og lifað við sömu verðbólgu.

Það er athyglisvert við breytingarnar að þær kveða í rauninni ekki á um árlegar hækkanir greiðslna úr fæðingarorlofssjóði heldur um breytingar á því hversu miklar skerðingar á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði gildi fram til annars vegar 1. janúar 2025 og hins vegar til 1. janúar 2026.

Spyrja má sig hvort lagabreyting sem skerði réttindi foreldris barns á grundvelli fæðingardags þess úr sameiginlegum sjóðum skattgreiðenda á slíkum forsendum samrýmist jafnræðisreglu stjórnarskrár. Þá má spyrja sig hvort lagabreytingin hafi í för með sér neikvæðan hvata fyrir foreldra til að bíða með frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur, eða jafnvel neikvæðan hvata fyrir móður sem komin er fram yfir settan dag skömmu fyrir áramót að hafna gangsetningu fæðingar vegna fjárhagslegra ástæðna. Vonandi eru það þó óþarfa vangaveltur, en það á eftir að koma í ljós.

Höfundur er lögmaður og eigandi Bótamál.is

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK