Bjartsýn þrátt fyrir erfiðleika

Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant.
Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant. Ljósmynd/Aðsend

Forsvarsmenn tæknifyrirtækisins Controlant eru bjartsýnir á að félaginu takist að ljúka þeirri fjármögnun sem félagið hyggst ráðast í.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Gísla Herjólfssonar, forstjóra og eins af stofnendum félagsins, við fyrirspurn ViðskiptaMoggans, en blaðið leitaði til hans til að fá svör við nokkrum þeim spurningum sem hvíla á markaðsaðilum varðandi rekstur félagsins.

Fram hefur komið að nokkrir lífeyrissjóðir hafi skuldbundið sig til að leggja félaginu til 10 milljónir bandaríkjadala en félagið á eftir að afla 20 milljóna dala til viðbótar af þeim 30 milljónum dala sem félagið hyggst sækja sér. Hluthafar samþykktu tillögur stjórnar um frekari hlutafjáraukningu til þess að styðja við yfirstandandi fjármögnunarferli á hluthafafundi félagsins í síðustu viku.

Hagræðingaraðgerðir dregið úr rekstrarkostnaði

Félagið hefur þurft að ráðast í hagræðingaraðgerðir að undanförnu sem meðal annars fólu í sér fækkun starfsmanna. Inntur eftir því hvort frekari aðgerðir séu á döfinni segir Gísli að félagið meti aðstæður hverju sinni.

„Félagið hefur þegar dregið verulega úr rekstrarkostnaði með markvissum hagræðingaraðgerðum og aukinni skilvirkni. Umtalsverðar fjárfestingar á undanförnum misserum í grunnstoðum starfseminnar og nýjum lausnum styðja við framtíðaráform félagsins,“ segir í skriflegu svari.

Forsvarsmenn félagsins tilkynntu á dögunum að tekjuspá félagsins yrði færð niður. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Controlant færir spá sína niður. Tekjur félagsins jukust mjög á árunum 2020-2023 og var félagið í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefnum í heimsfaraldrinum.

Tekjur félagsins eftir faraldur hafa ekki vaxið jafnhratt og vænst var Félagið nefnir við ViðskiptaMoggann að það haldi áfram vöruþróun á nýjum lausnum sem auki tækifæri félagsins til vaxtar og enn breiðara samstarfs við lyfjageirann.

Þar með talin sé þróun á Saga Card, sem er lausn sem veitir lyfjafyrirtækjum innsýn í flutning og birgðastöðu lyfja niður í einstaka vörur. Enn sé sterk eftirspurn eftir rauntímavöktun og stafrænni umbreytingu í aðfangakeðju lyfja.

„Áframhaldandi markaðssókn félagsins byggir á sterkum grunni sem félagið hefur fjárfest mikið í á undanförnum árum hugbúnaðar-, tækja- og þjónustulausna sem hafa nú þegar sannað sig hjá leiðandi lyfjafyrirtækjum á heimsvísu,“ segir í svarinu.

Getur ekki tjáð sig um einstaka samninga

Spurður út í þátttöku bandarískra félaga í fjármögnun félagsins segir Gísli að félagið geti ekki tjáð sig um einstaka aðila í fjármögnunarferlinu. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Controlant sé að vinna að samningi við danska lyfjarisann Novo Nordisk.

Forstjórinn vill ekki tilgreina hvað felst í þeim samningum. Bókfært gengi Controlant hefur verið nokkuð á reiki í uppgjörum mmeðal ólíkra hluthafa, en þó er ljóst að gengið hefur lækkað mjög að undanförnu.

Inntur eftir viðbrögðum vill forstjórinn ekki tjá sig um gengi en ítrekar að Controlant sé í leiðandi stöðu á sviði rauntímavöktunarlausna fyrir lyfjaiðnað og sé nú þegar í samstarfi við sum af stærstu lyfja- og flutningafyrirtækjum heims.

Hann útskýrir að þróunin í lyfjageiranum, þar sem flóknum og viðkvæmum lyfjum á borð við líftæknilyf fjölgar ört, kalli á aukna rauntímavöktun, stafrænar lausnir og sjálfvirknivæðingu í aðfangakeðju lyfja.

„Þar er Controlant leiðandi og við teljum okkur hafa mikla möguleika til vaxtar á komandi árum við að styðja við lyfjageirann að umbylta aðfangakeðju sinni með sjálfbærni og öryggi sjúklinga. Við erum sannfærð um að á grundvelli tækifæranna sem blasa við okkur og þeim sterka grunni sem félagið hefur þegar byggt upp með stuðningi hluthafa munum við stuðla að frekari framtíðarverðmætasköpun,“ segir Gísli forstjóri Controlant.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK