Flugfélagið Play er með til skoðunar að auka hlutafé félagsins og eftir atvikum sækja fjármögnun í tengslum við nýtt flugrekstrarleyfi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu félagsins í tengslum við uppgjör þriðja ársfjórðungs þessa árs.
Forstjóri Play hefur hingað til sagt að félagið muni ekki sækja meira fjármagn. Á afkomufundi nefndi forstjórinn að rekstrarniðurstaða félagsins væri vonbrigði. Hann tilgreindi að ekki hafi verið tekið ákvörðun um hvar, hvenær og hvernig fyrirtækið sæki sér meira fjármagn.
Heildartap félagsins nam 27,1 milljón Bandaríkjadala á fyrstu þremur ársfjórðungum þessa árs sem nemur rúmum 3,7 milljörðum íslenskra króna miðað við meðalgengi fyrstu þrjá mánuði þessa árs.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var 15,3 milljónir bandaríkjadala á fyrstu þremur mánuðum ársins sem nemur 2,1 milljarði íslenskra króna ef miðað er við meðalgengi tímabilsins.
Lausafjárstaða Play er 39,8 milljónir Bandaríkjadala sem er um 5,5 milljarðar íslenskra króna miðað við meðalgengi fyrstu þrjá ársfjórðunga og hefur því aukist um 0,6 milljónir bandaríkjadala á milli ára. Fram kemur í tilkynningunni að leigugreiðslum vegna flugvéla PLAY sé þannig háttað að þær eru hærri yfir sumartímann en lægri á veturna. Lækkun leigugreiðslna yfir vetrarmánuðina 2024-2025 nemur 4,3 milljónum bandaríkjadölum miðað við síðasta ár. Í apríl jók félagið hlutafé sitt um 32 milljónir dala. Í lok annars ársfjórðungs var lausafjárstaða Play 51,4 milljónir dala eða sem nemur 7 milljörðum króna.
Flugfélagið kynnti í síðustu viku nýtt rekstrarlíkan en félagið mun sækja um nýtt flugrekstrarleyfi á Möltu og jafnframt einblína á sólarlandaferðir til Suður-Evrópu. Gert er ráð fyrir að nýtt viðskiptalíkan verði raungert að fullu á næstu 12-18 mánuðum. Að breytingunum loknum er gert ráð fyrir að sólarlandaflug félagsins telji um 35% af rekstrinum en var áður 25%, leiguverkefni verði um 35% og að tengileiðakerfið verði um 30% en var áður 75%.
Rekstrarniðurstaða (EBIT) var jákvæð um 9,6 milljónir bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi 2024 sem er 3,7 milljónum bandaríkjadala lakari niðurstaða en á sama tíma í fyrra þegar rekstrarniðurstaðan var 13,4 milljónir bandaríkjadala.
Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi voru 100,5 milljónir bandaríkjadala, samanborið við 110,2 milljónir bandaríkjadala í fyrra.
Á sama tíma dróst framboð á sætiskílómetrum (ASK) saman um 5,2% á milli ára. Tekjur af meðalflugfargjaldi drógust saman um 9% á milli ára sem rekja má til aukinnar samkeppni í flugi yfir Atlantshafið. Hliðartekjur námu 30,1 milljón bandaríkjadala og drógust því saman um 1,8 milljón bandaríkjadala frá fyrra ári. Samdráttur í hliðartekjum kemur þó heim og saman við samdrátt í farþegafjölda þar sem hliðartekjur á farþega í þriðja ársfjórðungi voru óbreyttar í 58 bandaríkjadölum.
Heildartekjur á hvern framboðinn sætiskílómetra (TRASK) voru 5,8 bandaríkjasent samanborið við 6,1 bandaríkjasent árið 2023. TRASK dróst þannig saman um 5% á milli ára vegna mjög aukins framboðs á flugi yfir Atlantshafið sem þrýsti niður verðlagningu félagsins. Arðbærir áfangastaðar PLAY í Evrópu náðu ekki að bæta upp fyrir tap á flugi til og frá Norður-Ameríku. TRASK jókst þó um 14% frá öðrum ársfjórðungi 2024.
Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra (CASK) dróst saman um 1% á milli ára, úr 5,32 bandaríkjasentum í 5,26. Kostnaður á hvern framboðinn sætiskílómetra að undanskildu eldsneyti (CASK ex-fuel) jókst um 4% á milli ára, úr 3,39 bandaríkjasentum í 3,53 bandaríkjasent. Það má helst rekja til samdráttar í framboði á sætiskílómetrum en jafnframt hækkunar launa hjá félaginu.
PLAY flutti 521 þúsund farþega á þriðja ársfjórðungi 2024 en sætanýting var 89% á tímabilinu í samanburði við 88% á sama tíma í fyrra. Flugrekstur gekk vel á ársfjórðungnum en stundvísi PLAY mældist 89%, samanborið við 85% í fyrra.
Í uppgjöri Play segir að ýmsir þættir sem bendi til þægilegri rekstrar á komandi vetri miðað við þann síðasta. Þar á meðal eru hærra TRASK horft fram á veginn, lægra olíuverð, tiltölulega stöðugt ástand á Reykjanesi og samningur um ACMI-leigu vélar í flota PLAY til Miami í vetur.
Haft er eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play í tilkynningu:
„Þetta eru miklar breytingar á grundvallarrekstri PLAY en flugfélagið verður áfram íslenskt fyrirtæki, með höfuðstöðvar og helstu starfsemi á Íslandi sem státar af framúrskarandi atvinnumönnum í sínu starfsliði. Við erum þess fullviss að þessar breytingar verða arðbærar og ég hlakka til að færa fjárfestum okkar og hörkuduglegu starfsfólki fréttir af stórbættri rekstrarniðurstöðu ásamt því að færa landsmönnum meiri sól á betra verði.“