Auka skilvirkni rekstrar og vöruúrval

Finnur Oddsson forstjóri Haga segir möguleikana í kaupunum fjölbreytta, allt …
Finnur Oddsson forstjóri Haga segir möguleikana í kaupunum fjölbreytta, allt frá samlegð í rekstrarkostnaði yfir í fjármögnun. Ljósmynd/Aðsend

Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir í samtali við Morgunblaðið að þróun færeysku verslanakeðjunnar SMS verði í góðu samstarfi við forsvarsmenn fyrirtækisins. Þó sé líklegt að einhverjar breytingar verði gerðar á starfseminni.

„Þær breytingar verða þó ávallt með það að leiðarljósi að bæta þjónustu, vöruúrval og verð til viðskiptavina. Það hefur ekkert verið ákveðið varðandi þær breytingar, enda fullsnemmt að greina frá því,“ segir Finnur.

Greint var frá því í vikunni að Hagar og eigendur P/F SMS í Færeyjum hefðu undirritað skilyrt samkomulag um kaup og sölu á öllu hlutafé í SMS. Samkomulagið er gert með fyrirvörum, m.a. um endanlega skjalagerð, niðurstöðu áreiðanleikakannana og samþykki eftirlitsaðila. Finnur segir að fyrirhuguð kaup Haga á P/F SMS í Færeyjum séu því í samræmi við stefnu félagsins og markmið.

„Við horfum til tækifæranna sem felast í því að styrkja rekstur Haga á sviði dagvöruverslunar og auka skilvirkni rekstrar og vöruúrval hjá SMS,“ segir Finnur.

Bjartsýnn á að kaupin gangi í gegn

Hann kveðst vera bjartsýnn á að kaupin gangi í gegn, enda engar forsendur til annars, í ljósi þess að Hagar séu ekki með neina aðra starfsemi í Færeyjum. Hann segir að mikill skyldleiki sé með Högum og SMS, sem tengist meðal annars rekstri Bónus verslana í báðum löndum.

„Möguleikarnir eru fjölbreyttir allt frá samlegð í rekstrarkostnaði yfir í fjármögnun. Hvað varðar áskoranir eru þær alltaf til staðar í rekstri, ekki síst í dagvöruverslun, þess vegna er þessi rekstur svo skemmtilegur,“ segir Finnur.

Hann rifjar upp að síðustu 3-4 ár hafi Hagar lagt sérstaka áhersla á að styrkja grunnrekstur fyrirtækja sinna og segir hann að sá árangur endurspeglist meðal annars í því að uppsafnaður hagnaður á hlut hafi ríflega tvöfaldast á tímabilinu.

„Á þessum grunni kynntum við fyrr á árinu nýjar áherslur, þ.e. að til viðbótar við eðlilegan fókus á grunnrekstur myndum við í auknum mæli horfa til nýrra tækifæra til að efla starfsemi Haga enn frekar, bæði tengt kjarnastarfsemi og öflun nýrra tekjustrauma eða stoða í rekstri,“ segir Finnur.

Leiðandi aðili á dagvörumarkaði

SMS rekur átta Bónus-lágvöruverðsverslanir víða í Færeyjum, fjórar smærri klukkubúðir í Þórshöfn undir nafninu Mylnan, og stórverslunina Miklagarð í Þórshöfn.

Félagið er einnig umsvifamikið í annarri starfsemi, m.a. rekstri stærstu verslunarmiðstöðvar Færeyja, fjölda veitingastaða, smávöruverslana, brauð- og kökugerðar, kjötvinnslu og líkamsræktarstöðva. Að auki á félagið stórt fasteignasafn sem telur um 11.000 m2 þar sem eignir eru að mestu nýttar undir eigin starfsemi en einnig leigðar til þriðja aðila.

Aðrir stórir aðilar á dagvörumarkaði í Færeyjum eru verslanakeðjurnar „Á“ og „FK“, en þær reka á annan tug matvöruverslana undir þeim merkjum, auk nokkurra smærri verslana.

Aðspurður segir Finnur að félagið hafi ekki áreiðanlegar upplýsingar um markaðshlutdeild SMS né samkeppnisaðila þar í landi.

„Það er þó ljóst að SMS telst til leiðandi aðila á dagvörumarkaði í Færeyjum og hefur verið um nokkurt skeið,“ segir Finnur.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka