Meðalheildsöluverð fyrir raforku sem verður afhent á næsta ári hefur verið töluvert hærra en fyrir þetta ár.
Sérfræðingur sem ViðskiptaMogginn ræddi við segir að veruleg óvissa ríki um hvort og þá á hvaða verði raforka fyrir næstu misseri verði til sölu í vetur, eftir að söluframboð svo gott sem þurrkaðist upp í síðustu tveimur stóru mánaðarlegu uppboðum íslenska raforkumarkaðarins Vonarskarðs.
Búast megi því við töluverðum verðhækkunum á smásölumarkaði miðað við fyrirliggjandi tölur.
Á vefsvæði Vonarskarðs má sjá að boðið söluverð raforku fyrir desember, sem dæmi, hækkaði um hátt í 40% frá uppboði síðasta mánaðar.
Heimildir blaðsins herma að mánaðarblokkir í vetur hafi verið að skipta um hendur á yfir 10 þúsund krónur, en markaðsverð fyrir veturinn í septemberuppboðinu var á bilinu 8-9 þúsund krónur megavattstundin. Skammtímaverð Landsvirkjunar hafa hækkað um 20% milli mánaða. Lægsta verðið sem er á nóttunni hækkaði mest eða um rúmlega 40%.
Heildsöluverð fyrir orku hefur verið miklu hærra alveg frá því að Vonarskarð var sett á laggirnar fyrr í vor.
Það blasir við, að mati sérfræðings, að við þurfum meiri orku miðað við skuldbindingar Landsvirkjunar og að þurrt og kalt sumar hafi tekið sinn toll af orkumarkaðnum.
Fram kemur í skriflegu svari frá Úlfari Linnet, forstöðumanni orkumiðlunar hjá Landsvirkjun, að stofnunin geti ekki greint frá þátttöku Landsvirkjunar í einstaka söluferlum.
„Niðurstöður markaðarins sýna að framboð á grunnorku hefur dregist verulega saman frá því síðasta sumar. Við þær aðstæður er til staðar framboð á mánaðarblokkum en nokkur munur er milli tilboða seljanda og kaupenda,“ segir í svari Úlfars.
Þar segir enn fremur að mikilvægt sé fyrir almenna notendur að framboð inn á raforkumarkað sé fullnægjandi.
Eruð þið ekki með næga orku aflögu fyrir almenna markaðinn vegna annarra skuldbindinga?
„Landsvirkjun hefur aukið framboð sitt inn á heildsölumarkað á undanförnum árum og staðið við afhendingu á allri forgangsorku sem samið er um. Önnur fyrirtæki selja einnig inn á raforkumarkað. Hlutdeild Landsvirkjunar hefur hækkað á undanförnum árum og er nú ríflega 50%,“ segir í svari Úlfars.
Nú höfum við upplýsingar um að meðalheildsöluverð raforku hafi hækkað umtalsvert sem væntanlega smitar yfir í smásölu og það verði umtalsverðar hækkanir á næsta ári. Getið þið tekið undir það eða spilar fleira inn í?
„Raforkuverð má sjá í raforkuvísum Orkustofnunar og í niðurstöðum söluferla Vonarskarðs. Raforkuverð segir ekki alla söguna þegar rætt er um endanlegan raforkukostnað heimila og smærri fyrirtækja, orkuverðið sjálft er aðeins um þriðjungur af raforkureikningnum en við það bætist dreifingar- og flutningskostnaður,“ segir Úlfar enn fremur í svarinu.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum í dag.