Á hverju getum við núna átt von?

Niðurstöður kosninganna í Bandaríkjunum munu hafa áhrif á efnahagslíf heimsins …
Niðurstöður kosninganna í Bandaríkjunum munu hafa áhrif á efnahagslíf heimsins en greinendur hafa ef til vill of miklar áhyggjur af tali Trumps um tolla. Listamaðurinn Alkent Pozhegu við mósaíkverk sitt af Trump og Harris. AFP/Armend Nimani

Ásgeir Ingvars­son kaf­ar ofan í frétt­ir af er­lend­um vett­vangi í ViðskiptaMogg­an­um á miðviku­dög­um.

Það gæti gerst að það taki nokkra daga að fá á hreint hvort Donald Trump eða Kamala Harris verði næsti forseti Bandaríkjanna en úrslitin munu einkum ráðast af skiptingu atkvæða í sjö ríkjum: Georgíu, Norður-Karólínu, Pennsylvaníu, Michigan, Wisconsin, Arizona og Nevada. Fyrstu ríkin tvö ættu að klára talninguna hratt og vel en Pennsylvanía verður sennilega ekki með sínar tölur klárar fyrr en undir morguninn að staðartíma. Búist er við að tölurnar í Wisconsin liggi fyrir á miðvikudag en í Arizona og Nevada gæti talningin tekið nokkra daga.

Samkvæmt skoðanakönnunum er svo mjótt á munum á milli Trumps og Harris að engin leið þykir að spá um það með vissu hvort þeirra mun sigra. Rétt er samt að hafa þann fyrirvara á könnununum að andúð vinstrimanna í garð Trumps er svo mikil, og heiftin slík, að stuðningsmenn hans hafa tamið sér að fara leynt með afstöðu sína til að forðast árekstra og leiðindi. Kæmi mér ekki á óvart ef stuðningurinn við Trump reynist mun meiri en kannanirnar hafa gefið til kynna, en alltént reikna veðbankarnir með að 59% líkur séu á að Trump hafi þetta.

Lokaspretturinn hefur verið æsispennandi: Trump rúllaði upp þriggja tíma viðtali við Joe Rogan í síðustu viku og það gerði varaforsetaefnið J.D. Vance sömuleiðis. Harris var einnig boðið í hljóðverið hjá vinsælasta hlaðvarpi heims en gerði alls kyns sérkröfur sem ekki var hægt að koma til móts við. Aftur á móti átti Harris gott innslag um helgina í grínþættinum Saturday Night Live og gott ef hún virtist ekki vera svolítið hnyttin og með vott af persónuleika – en auðvitað var hún að lesa upp úr handriti.

Auk forsetakosninganna halda Bandaríkjamenn þingkosningar og virðast skoðanakannanir benda til að Repúblíkanar geti náð meirihluta bæði í efri og neðri deild þingsins.

Fjárfestar eru á nálum og greinir Financial Times frá að verðbréfadeildir stóru sjóðanna og bankanna séu búnar að stilla spilunum þannig upp að þeir geti ráðið við hvers kyns sveiflur og krampaköst á mörkuðum og á Wall Street hafa bankarnir meira að segja gætt að því að panta hótelherbergi fyrir þá verðbréfamiðlara sem búa í úthverfunum ef ske kynni að komandi vinnudagar verði svo langir og erfiðir að þeir komist ekki heim til sín.

Aðrir halda að sér höndum, minnugir þess að markaðurinn á það stundum til að fá skammvinnt taugaáfall í kringum bandarísku forsetakosningarnar og best að bíða á hliðarlínunum á meðan ósköpin ganga yfir. Er þess skemmst að minnast þegar verðbréfamarkaðurinn vestanhafs tók nokkuð skarpa dýfu eftir sigur Trumps 2016 en rétti úr kútnum á innan við sólarhring og var eftir það á mikilli siglingu allt þar til kórónuveiran fór á kreik.

Fjórðungur af hagkerfi jarðar

Áhugavert er að skoða hvaða afleiðingar greinendur reikna með að kjör Trumps eða Harris muni hafa bæði á hagkerfi Bandaríkjanna og alþjóðahagkerfið. Ekki skyldi vanmeta hversu mikil áhrif ákvarðanir stjórnmálamanna í Washington geta haft á allan heiminn því þrátt fyrir að vera heimkynni rétt rúmlega 4% jarðarbúa á fjórðungur allrar verðmætaframleiðslu í heiminum sér stað í bandaríska hagkerfinu.

Kannski gefur það lesendum betri tilfinningu fyrir efnahagslegum yfirburðum Bandaríkjanna að í maí var markaðsvirði Nvidia meira en samanlagt virði allra fyrirtækjanna í þýsku kauphöllinni og í júní tók þetta eina félag fram úr heildarvirði kauphallanna í París annars vegar og Lundúnum hins vegar.

Er það til marks um vægi Bandaríkjanna í alþjóðahagkerfinu að greinendur hjá Goldman Sachs reiknuðu það út að ef hugmyndir Trumps um nýja tolla á evrópskar vörur yrðu að veruleika gæti það orðið til þess að lækka hagvöxt á evrusvæðinu um eitt prósentustig. Greinendur Economist fengu það hins vegar út að verndarstefna Trumps gæti strax á næsta ári orðið til þess að minnka hagvöxt í Víetnam, Taívan og Kína um 0,8; 0,7 og 0,4 prósentustig.

Trump þykir almennt líklegur til að vilja einfalda regluverkið, lækka skatta á fyrirtæki, draga úr beinum stuðningi hins opinbera við tilteknar atvinnugreinar og leggja tolla á innflutning til að efla innlenda framleiðslu. Harris – að því marki sem hún hefur gefið stefnu sína í ljós – þykir vís til að gera regluverkið flóknara og þyngra í vöfum, hækka skatta á atvinnulífið, auka ríkisstuðning við útvalda geira og lækka tollamúra.

Efnahagsstefna Trumps er talin líkleg til að leiða til ögn minni hagvaxtar vestanhafs, meiri verðbólgu, sterkari dals og meiri fjárlagahalla en með Harris við völd ætti bandaríski seðlabankinn að geta lækkað stýrivexti hraðar og jafnar og greinendur spá því líka að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði meiri undir hennar stjórn.

Sérfræðingar Economist spá því að kjör Trumps muni dempa hagvöxt í Asíu, Evrópu og hjá löndum Rómönsku Ameríku en að stefna Harris muni leiða til betri hagvaxtar í þessum heimshlutum.

Trump notar tolla sem samningatæki

Eðlilega eru greinendur mjög neikvæðir í garð hugmynda Trumps um að hækka tolla. Snemma í kosningabaráttunni viðraði hann hugmyndir um flatan 10% toll á allan innflutning sem hann svo hækkaði upp í 20% og bætti um betur með því að lofa 60% tollum á vörur frá Kína.

Heilt á litið gera tollar meira ógagn en gagn fyrir bæði kaupendur og seljendur, en þó er gaman að reikna það út að Bandaríkin flytja inn varning fyrir 3.000 milljarða dala árlega og gæti 10% tollur því skilað 300 milljörðum aukalega í ríkissjóð til að vega upp á móti kostnaðinum við skattalækkanir og jafnvel saxa örlítið á 36.000 milljarða dala skuldir alríkisstjórnarinnar.

(Auðvitað er réttast að líta á nýja tolla Trumps sem skatt sem erlendir framleiðendur og bandarískir neytendur deila með sér og á móti tekjunum af tollunum þyrfti að draga frá tjón bandarískra útflutningsfyrirtækja ef önnur lönd myndu svara í sömu mynt og með tollum á bandarískan varning.)

Hitt þarf að muna að Trump hefur áður notað tolla sem samningatæki til að knýja fram sanngjarnari viðskipti við aðrar þjóðir s.s. þegar tilteknir geirar spila ekki alveg eftir reglunum og njóta ýmist rausnarlegs ríkisstuðnings eða fá frítt spil til að menga umhverfið.

Ein af mínum uppáhalds fréttamyndum náðist af Trump á fundi G7-ríkjanna í Quebec árið 2018 þar sem Merkel, May, Macron og Abe umkringja hann og virðist ekki skemmt. Trump var þá nýbúinn að hækka tolla á ál og stál og þótti hinum ráðstefnugestunum það fullkomlega óviðunandi.

Trump kom þá fundargestum í opna skjöldu og lagði til málamiðlun: að afnema allar hömlur á viðskiptum á milli þjóðanna, fjarlægja allar hindranir og hætta öllum niðurgreiðslum, en þá kom annað hljóð í strokkinn hjá þjóðarleiðtogunum sem fyrir einu andartaki höfðu fundið verndarstefnu Trumps allt til foráttu.

Annars eru Bandaríkin líklega eina landið í heiminum sem væri ekki að skjóta sig alvarlega í fótinn með stífri verndarstefnu. Ekki aðeins er bandaríska hagkerfið risavaxið, eins og ég nefndi hér að ofan, og heimsbyggðin öll háð bandarískum varningi, en Bandaríkin eru líka sjálfum sér næg og nemur útflutningur ekki nema 10% af landsframleiðslu. Til samanburðar myndar útflutningur vöru og þjónustu meira en helminginn af landsframleiðslu Þýskalands.

Ekki sama fólkið í Evrópu

Í Evrópu er vitaskuld miklu meiri stemning fyrir Harris, enda hallast evrópsk stjórnmál langt til vinstri. Er samt gott að minnast þess að þegar Trump var síðast við völd gaf hann kollegum sínum í Evrópu þarft og verðskuldað spark í rassinn. Hann þrýsti t.d. á Nato-ríkin að verja hærra hlutfalli landsframleiðslu til varnarmála og hafa þau núna flest tekið við sér; og hefðu betur gert það áður en Rússland réðst inn í Úkraínu. Trump varaði Þjóðverja líka við að verða of háðir orku frá Rússlandi og viðskiptum við Kína, og þar hafði hann heldur betur á réttu að standa.

Leiðtogar Evrópu eru í veikari stöðu nú en fyrir fjórum árum. Reynsluboltinn Merkel er farin og Scholz – sem gæti bráðum verið á útleið – kemst ekki með tærnar þar sem hún hafði hælana. Þá er Macron lemstraður eftir að Evrópuþings- og þingkosningarnar í sumar fóru ekki eins og til stóð. Sigri Trump í kosningunum er röðin ef til vill komin að Orbán í Ungverjalandi, Meloni á Ítalíu og Duda í Póllandi að ganga fram fyrir skjöldu og viðhalda góðu sambandi Evrópu við bandarísk stjórnvöld.

Grein­in birt­ist í ViðskiptaMogg­an­um miðviku­daginn 6. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK