Samkvæmt spá Arion greiningar munu hærri raunvextir og hert aðgengi að lánsfé leiða til raunverðslækkana á komandi misserum eins og áður hefur verið fjallað um á viðskiptasíðu Morgunblaðsins. Aftur á móti er útlit fyrir að eftirspurn eftir húsnæði muni aukast umfram framboð, sem endurspeglast í hækkandi hlutfalli íbúa á hverja íbúð.
Þá eru áhrif eftirspurnarskellsins sem varð við jarðhræringar á Reykjanesi að fjara út, en aukin innspýting í hlutdeildarlán undanfarið gæti haldið lífi í markaðinum.
Eftirspurn mun þó vaxa hraðar en framboð, sem mun dempa raunverðslækkanir á næsta ári og leiða til raunverðshækkana þegar lánaskilyrði vænkast. Þar af leiðandi er aðeins um tímabundna ládeyðu að ræða.
Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Arion greiningu, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að tveir kraftar á þessum markaði vinni hvor á móti öðrum; annars vegar sé erfiðara fyrir fólk að kaupa sökum hærri vaxta og þrengri lánaskilyrða og hins vegar vaxi eftirspurnin hraðar en framboð sökum fólksfjölgunar og breytts fjölskyldumynsturs.
Spurður út í áhrif vaxtalækkunarferlisins sem nú er hafið á íbúðamarkaðinn segir Kári að það muni taka töluverðan tíma fyrir það að hafa áhrif sökum hárra raunvaxta.
„Það eru verðtryggðu vextirnir sem stýra í dag þar sem fleiri hafa ráð á að taka verðtryggð lán en óverðtryggð. Stýrivextir þurfa að lækka töluvert meira enn til að þeir fari að hafa teljanleg áhrif á markaðinn,“ segir Kári.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum sem kom út í dag.