Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hyggst kaupa fjölskyldufyrirtækið B.Jensen sem rekur sláturhús, kjötvinnslu og verslun við Lónsbakka, við landamæri Hörgársveitar og Akureyrar.
Akureyri.net greindi frá fyrirhuguðum kaupum KS fyrr í dag en fyrirtækið eignaðist hlutafé í Kjarnafæði-Norðlenska fyrr á árinu.
B. Jensen er fjölskyldufyritæki sem stofnað var árið 1968 af hjónunum Benny Albert Jensen og Jónínu Sigurbjörgu Guðjónsdóttir en núverandi eigendur eru Erik, sonur þeirra hjóna, og eiginkona hans, Ingibjörg Stella Bjarndóttir sem reka fyrirtækið ásamt börnum sínum.
Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis-Norðlenska, staðfesti við Akureyri.net að alvarlegar viðræður væru í gangi á milli aðila og spennandi tímar framundan. Með kaupunum verða bæði stórgripasláturhúsin í Eyjafirði á sömu hendi.
„Viðskiptin eru ekki endanlega um garð gengin og ótímabært að tjá sig í smáatriðum um hvernig málum verði fyrir komið í framhaldinu enda talsverð vinna framundan við könnun valkosta og fleira,“ sagði Ágúst Torfi.