Myndlistarkaupstefnan Art Basel Paris fór fram á dögunum í Grand Palais-sýningarhöllinni glæsilegu í miðborg Parísar og var mikið um dýrðir. Þetta er í þriðja skiptið sem kaupstefnan fer fram í borginni. Kaupstefnan er arftaki FIAC, sem sett var á fót árið 1974, og Paris Photo, sem hóf göngu sína árið 1997.
Verkið sem hæst verð fékkst fyrir í ár var höggmynd frönsku listakonunnar Louise Bourgeois, Könguló l (Spider l) frá árinu 1995, sem selt var hjá Hauser & Wirth-galleríinu á 20 milljónir bandaríkjadala, eða 2,8 milljarða króna.
Eins og segir á myndlistarvefnum Artsy er verðið þrefalt hærra en fékkst fyrir dýrasta verkið á Art Basel Paris í fyrra. Þetta er, eins og segir einnig á Artsy, til marks um að Art Basel er búið að koma sér vel fyrir í París og hefur léð borginni enn meiri vigt í alþjóðlegri myndlistarsenu.
Art Basel var stofnuð af galleríeigendum árið 1970. Hún er í fararbroddi á sínu sviði og tengir saman safnara, gallerí og myndlistarmenn og er jafnan gríðarlega vel sótt. Auk Parísar heldur Art Basel sambærilegar kaupstefnur í Basel í Sviss, Hong Kong og á Miami Beach í Bandaríkjunum.
„Við unnum að Art Basel Paris 2024 í tvö ár,“ segir stjórnandi messunnar, Clément Delépine, á Artsy. „Að sjá hana lifna við á jafn stórkostlegan hátt og hún gerði í hjarta Parísar var sannarlega einstakt.“
Undir það tekur blaðamaður sem sótti messuna heim og eyddi þar góðum tveimur tímum. Auðveldlega hefði þó verið hægt að verja þar mun lengri tíma enda tóku þátt í messunni 195 gallerí frá 42 löndum, 41 fleira en í fyrra.
Af þátttakendunum 195 voru 53 gallerí með í fyrsta skipti.
Eini fulltrúi Íslands sem blaðamaður ViðskiptaMoggans varð var við á messunni var Ólafur Elíasson, en hann átti meðal annars höggmyndina sem fylgir fréttinni í bás Tanya Bonaktar-gallerísins.
Auk aðalgallerísvæðisins var boðið upp á sérsýninguna Emergence. Þar héldu valin gallerí einkasýningar ungra og upprennandi listamanna.
Þá var boðið upp á nýjungina Premise þar sem níu gallerí kynntu verkefni sýningarstjóra.
Þeir sem ekki keyptu verk á kaupstefnunni sjálfri þurftu ekki að fara tómhentir heim því hægt var að kaupa margvíslegan Art Basel-merktan varning í sérstakri minjagripaverslun við útganginn.