Fasteignasali með áratuga reynslu af sölu fasteigna í Reykjavík segir skort á bílastæðum á þéttingarreitum í borginni fæla frá hugsanlega kaupendur. Meirihluti borgarbúa sé ekki tilbúinn að taka upp bíllausan lífsstíl.
„Mitt mat er að það hafi mikil áhrif á áhuga fólks ef það fylgja engin bílastæði með íbúðum,“ sagði fasteignasalinn sem vildi ekki koma fram undir nafni. „Það er oft verið að tala um bíllausan lífsstíl en það er meira í orði en á borði. Maður sér það til dæmis á eftirspurninni á Heklureit að fólk er mikið að leita eftir því að hafa stæði,“ sagði fasteignasalinn og vísaði til þess að salan á Heklureitnum hafi gengið nokkuð vel, eins og Morgunblaðið hefur sagt frá.
Rímar þetta við það sem annar fasteignasali sagði við Morgunblaðið í byrjun október en sá sagði marga kaupendur telja það mikinn ókost ef bílastæði fylgi ekki með íbúð. Íbúðir án stæða væru töluvert þyngri í sölu. Þá benti hann á að hátt hlutfall kaupenda á nýjum íbúðum í miðborginni væri eldra fólk. Það kynni að hafa sitt að segja.
Tilefnið er að hægt hefur gengið að selja íbúðir þar sem bílastæði fylgja ekki með íbúðum. Meðal þeirra er fjölbýlishúsið á Snorrabraut 62 en ekkert sérmerkt bílastæði fylgir með húsinu. Hins vegar er stoppistöð Strætó beint fyrir framan húsið á Snorrabraut.
Rætt er við Kristinn Geirsson, framkvæmdastjóra félagsins sem byggir húsið á Snorrabraut, í Morgunblaðinu í dag en hann segir félagið hafa tekið dýrari íbúðirnar úr sölu vegna lítils áhuga.
Skipholt 1 er annað dæmi um þéttingarreit án bílastæða þar sem salan hefur verið róleg. Ein íbúð hefur selst frá því síðastliðið vor og eru 15 íbúðir seldar af 34. Þar af er Brynja, leigufélag Öryrkjabandalagsins, með tvær íbúðir og Félagsbústaðir með þrjár íbúðir. Hafa því 10 íbúðir selst í húsinu á almennum markaði síðan salan hófst haustið 2023.
Hlíðarhorn á Hlíðarenda er annað dæmi um þéttingarreit þar sem bílastæði fylgja ekki með íbúðum. Það er að vísu hægt að leigja bílastæði en alls fylgir 101 bílastæði með 195 íbúðum í húsinu. Fyrstu 33 íbúðirnar eru komnar í sölu og hefur ein selst í haust, samkvæmt söluvef.
Þess má geta að skipulagsyfirvöld í Reykjavík heimiluðu ekki að bílum yrði lagt á ská við götuna sem húsið stendur við en með því hefði verið hægt að leggja fleiri bílum við götuna. Á móti kemur að verið er að reisa bílastæðahús handan við Hringbraut með 520 stæðum fyrir nýjan Landspítala. Bílastæðin eru ætluð starfsmönnum spítalans en verða jafnframt öðrum opin gegn greiðslu.
Annað dæmi er Grandatorg í Vesturbænum en þar eru 84 íbúðir í þremur byggingum. Bílastæði fylgja ekki með íbúðum en hægt verður að kaupa eða leigja stæði í kjallara. Samkvæmt fasteignasala kosta stæðin átta til tíu milljónir en verðið fari eftir staðsetningu í kjallaranum. Búið sé að selja 24 íbúðir í húsinu síðan salan hófst í ágúst sl.
Samkvæmt fasteignaskrá á Brynja, leigufélag Öryrkjabandalagsins, tíu íbúðir í húsinu, Sólvallagötu 79, en Félagsbústaðir eina íbúð. Þetta er tæplega helmingur seldra íbúða.
Þá fylgir takmarkaður fjöldi bílastæða í kjallara með nýjum íbúðum í Þverholti 13 og í Borgartúni 24 en salan á báðum þessum reitum hefur gengið betur en í Skipholtinu og á Snorrabraut.
Með sama áframhaldi munu fleiri fjölbýlishús á þéttingarreitum koma á markað í Reykjavík á næstu misserum sem verða með takmörkuðum fjölda bílastæða.
Samhliða er verið að fækka bílastæðum í miðborginni og er markmiðið meðal annars að ýta undir notkun almenningssamgangna og þannig búa í haginn fyrir innleiðingu borgarlínu. Samkvæmt fyrstu áformum ætti borgarlína að vera komin af stað en nú er miðað við að uppbyggingu fyrsta áfanga ljúki á næsta áratug.
Nærtækt dæmi um slíka fækkun stæða er að gegnt fjölbýlishúsinu í Skipholti 1 eru bílastæði sem borgin hyggst fjarlægja og koma fyrir torgi.
„Hugmyndirnar fengu góðar viðtökur þegar þær voru kynntar og í hverfisskipulagi er gert ráð fyrir að torgið byggist upp í tengslum við endurhönnun borgargötunnar við Skipholt og Stórholt. Við hönnun torgsins verður lögð áhersla á grænt yfirbragð til að búa til aðlaðandi dvalarsvæði á þessum stað þar sem borgargatan með fjölbreyttri verslun og þjónustu mætir þéttri íbúðabyggð,“ segir á vef borgarinnar um þessi áform.