Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að helsti óvissuþátturinn er snúi að verðbólgu lúti að einkaneyslu. Launahækkanir hafi verið miklar á landinu og að þó að vísbendingar séu um að fólk hafi aukið sparnað sinn sé hætt við því að með aukinni neyslu fari verðbólgan af stað aftur.
„Helsta óvissan í spá peningamála snýr að því að einkaneyslan taki aftur á flug með lækkun vaxta. Þannig að fólk fari aftur að leyfa sér að eyða peningum,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is
Hann segir að allt hafi lagst með peningastefnunni undanfarið. Verðbólgan lækkar og útlit fyrir að hún muni gera það áfram á næsta ári. Á sama tíma hefur verið gott jafnvægi í utanríkisviðskiptum og á gjaldeyrismarkaði.
„Við erum ekki að sjá veruleg skuldavandræði og ég er að vona að við getum lækkað vexti samhliða því sem verðbólga og verðbólguvæntingar ganga niður. Hins vegar erum við lítið opið hagkerfi og eyland og því hef ég einna helst áhyggjur af ytri áföllum,“ segir Ásgeir.
Hann segist ekki eingöngu vera að vísa til átaka og spennu í heiminum, heldur óttast hann einnig að veruleg breyting gæti orðið á erlendum gjaldmiðlum og hækkun á olíuverði.
„Það hefur áhrif á útflutning og veikleiki Íslands er sá að við erum háð þremur útflutningsgreinum. Þær eru álið, ferðaþjónusta og sjávarútvegur. Álið getur orðið fyrir áhrifum af tollastríði. Ferðaþjónustan er viðkvæm fyrir átökum í heiminum sem gætu leitt til hækkunar á olíuverði sem og fiskveiðarnar okkar. Þetta er það sem við þurfum að hafa áhyggjur af,“ segir Ásgeir.