Verulega hægt á hagvexti frá byrjun síðasta árs

Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, fram­kvæmda­stjóri sviðs hag­fræði og pen­inga­stefnu Seðlabankans.
Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, fram­kvæmda­stjóri sviðs hag­fræði og pen­inga­stefnu Seðlabankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verulega hefur hægt á hagvexti á Íslandi frá því í byrjun síðasta árs þegar hann mældist 8% og hafa hagvaxtarhorfurnar fyrir þetta ár og það næsta versnað. Einkaneysla og útflutningur hafa dregist saman og er útlit fyrir að sparnaður heimila sé að vaxa meira en áður var talið.

Á sama tíma hefur hagvöxtur í viðskiptalöndum okkar, þá aðallega Bandaríkjunum, Spáni og Danmörku, vaxið síðustu mánuði.

Þetta kom fram í máli Þór­ar­ins G. Pét­urs­sonar, fram­kvæmda­stjóra sviðs hag­fræði og pen­inga­stefnu í Seðlabank­an­um, er hann gerði grein fyrir ákvörðun peningastefnunefndar um að lækka stýrivexti í morgun um 0,5 prósentustig, eða úr 9% í 8,5%.

Vextirnir lækkuðu síðast í byrjun október um 25 punkta eftir að hafa staðið í 9,25% í rúmt ár.

Hagvaxtarhorfur versna og atvinnuleysi þokast upp

Verðbólga hefur hjaðnað undanfarnar vikur, atvinnuleysi heldur áfram að þokast upp, það hægir á vexti innlendrar eftirspurnar og hagvaxtarhorfur hafa versnað.

Þórarinn segir þó óvissu um þessar horfur og hversu viðvarandi hjöðnun verðbólgunnar verður.

Á fyrri hluta síðasta árs mældist hagvöxtur 8% en undir lok árs var hann kominn niður fyrir 1,5%. Á fyrsta ársfjórðungi í ár mældist svo verulegur samdráttur.

Þórarinn segir ástæðuna fyrir þróuninni að miklu leyti mega rekja til loðnubrestsins.

Landsframleiðslan tók þó við sér og jókst um 1,7 prósentustig milli ársfjórðunga.

„Þetta er hins vegar ekki nógu mikil aukning milli fjórðunga til þess að breyta því að það mælist enn samdráttur milli ára.“

Ferðaþjónusta drifkraftur eftir heimsfaraldur

Einn megindrifkraftur þessa mikla hagvaxtar sem hér var eftir heimsfaraldurinn var mikill vöxtur í útflutningi, og þá sérstaklega ferðaþjónustu. Jókst útflutningur um 25-30% árið 2022.

„Smám saman hefur verið að hægja á þessum vexti eftir því sem að endurbatinn eftir farsóttina hefur miðað áfram og hægt hefur á fjölgun ferðamanna sem koma til landsins og á öðrum ársfjórðungi í ár þá fækkaði þeim á milli ára. Það var í takt við það sem við reiknuðum með en það sem kom okkur á óvart er verulegur samdráttur í öðrum þjónustuútflutningi sem gerði það að verkum að þjónustuútflutningur í heild dróst saman um tíu prósent milli ára í fyrsta sinn frá ársbyrjun 2021.“ 

Danska fyrirtækið sem ég man ekki hvað heitir

Hagvöxtur í viðskiptalöndum okkar hefur smám saman vaxið frá miðju síðasta ári. Var hann að meðaltali 1,4% á öðrum ársfjórðungi eftir að hafa verið í 1,1% á fyrsta ársfjórðungi. Eru horfur á að hann muni áfram aukast á seinni hluta þessa árs og verði kominn í 1,6% undir lok ársins.

Þróunin milli viðskiptalandanna er þó nokkuð ólík. Meðaltalið er 1,4% en hagvöxtur er töluvert meiri, sérstaklega á Spáni, í Bandaríkjunum og Danmörku.

„En það litast þó af miklum umsvifum í þessu danska lyfjafyrirtæki sem ég man aldrei hvað heitir,“ segir Þórarinn og vísar til áhrifa danska lyfjafyrirtækisins Novo Nordisk á hagvöxtinn í Danmörku.

Í öðrum Evrópulöndum hefur verið afar lítill hagvöxtur, þar á meðal Þýskalandi þar sem samdráttur hefur verið viðvarandi um nokkurn tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK