Bílapartasölunni Netpörtum á Selfossi, sem hefur verið í fararbroddi hér á landi þegar kemur að umhverfisvænum rekstri bílapartasölu, verður lokað fyrir fullt og allt þann 21. desember nk.
Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri og eigandi, skrifar á Facebook að það sé þeim hjá Netpörtum þungbært að tilkynna að ákveðið hafi verið að hætta starfsemi félagsins.
Netpartar, sem voru stofnaðir árið 2009, hafa alla tíð starfað með umhverfisvernd að leiðarljósi og eru fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að bjóða upp á umhverfisvæna endurvinnslu bifreiða, eins og segir á Facebook.
„Í gegnum tíðina höfum við fjárfest í og ötullega byggt upp öruggt og gott aðgengi að notuðum, gæðavottuðum og rekjanlegum varahlutum fyrir einstaklinga og bifreiðaverkstæði, og aðra starfsemi í kringum endurvinnslu á brotajárni og öðru hráefni úr tjónabílum.
Við höfum talað fyrir notkun notaðra varahluta sem lið í vitundarvakningu um endurnýtingu og endurvinnslu á bifreiðum og hlotið viðurkenningar fyrir framlag okkar til sjálfbærni, m.a. viðurkenningu Samtaka atvinnulífsins sem Framtak ársins í umhverfismálum.
Einnig höfum við átt farsælt og faglegt samstarf, bæði hérlendis og erlendis, um hvernig sé hægt að standa sem best að meðhöndlun tjónabíla og úrsérgenginna bifreiða, hvort sem þær ganga fyrir jarðefnaeldsneyti eða rafmagni.
Við erum afar stolt af því að hafa stutt við nýsköpunarfyrirtæki og framsækna hönnuði sem leitast við að nýta þau verðmæti sem felast í aflóga bifreiðum. Þá höfum við talað fyrir breytingum á regluverki og aukinni vitund um nauðsyn þess að styrkja löggjöf í þessum málaflokki,“ segir Aðalheiður á Facebook-síðunni.
Þar segir einnig að rekstrargrundvöllur félagsins hafi verið mjög erfiður undanfarin ár. Helstu ástæður sem eru nefndar eru vaxtastig í landinu en þó aðallega mikil hækkun á verði hráefnis eins og tjónabifreiða.
„Viðskiptamódel Netparta byggir á því að hafa aðgang að og kaupa bifreiðar á tjónauppboðum tryggingafélaganna, selja heila varahluti úr þeim og koma öðru hráefni úr þeim í endurvinnslu hjá til þess bærum aðilum. Verð á tjónabifreiðum á slíkum uppboðum hefur haldist mjög hátt í langan tíma og engin fyrirsjáanleg breyting virðist vera á því. Við sjáum okkur ekki fært að keppa lengur á þeim vettvangi, þar sem endursala á varahlutum og öðru hráefni heldur ekki í við þá hækkun,“ útskýrir Aðalheiður á Facebook.
Öllu starfsfólki Netparta hefur verið sagt upp störfum, en laun og launatengd gjöld verða greidd út í samræmi við uppsagnarfrest starfsfólks, eins og kveðið er á um í ráðningarsamningum. Síðasti starfsdagur Netparta verður 21. desember nk.
„Við erum óskaplega stolt af því sem við höfum áorkað en að sama skapi sorgmædd yfir því að ekki sé grundvöllur fyrir áframhaldandi starfsemi. Við trúum enn þá að starfsemi eins og okkar sé samfélagslega og umhverfislega nauðsynleg, ekki síst með hliðsjón af áformum Íslands um að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum.“
Að lokum þakkar Aðalheiður viðskiptavinum, samstarfsaðilum og velunnurum innilega fyrir viðskipti og stuðning á undanförnum árum.
„Sérstaklega viljum við þakka öllu okkar frábæra starfsfólki fyrir þeirra mikilvægu störf í gegnum tíðina,“ segir Aðalheiður að lokum.